140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:46]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er hálfundarlegt að heyra það frá hæstv. ráðherra að í raun sé ekkert kerfi á rannsóknum og ráðgjöf og svo nýtingu varðandi ýmsar auðlindir okkar, ekki síst í ljósi þeirra tíðinda sem við fengum nýlega af ört vaxandi þorskstofni. Ég held að það kerfi hafi þvert á móti reynst okkur afskaplega vel sem verið hefur við lýði þar. Ég rek mig hins vegar á að nokkur munur er á afstöðu hæstv. ráðherra umhverfismála og hæstv. forsætisráðherra til þeirra spurninga sem lúta að þeim málefnum sem snerta Hafrannsóknastofnun Íslands. Ekki er samræmi í þeim svörum sem þinginu eru gefin og það vekur óneitanlega eftirtekt og gefur tilefni til að fara miklu betur ofan í þá þætti.

Ég vil inna hæstv. ráðherra aðeins frekar eftir því sem hv. þm. Birgir Ármannsson spurði um sem laut að kostnaðarþætti þessa máls, þ.e. tilflutningi á viðfangsefnum á milli ráðuneyta, sérstaklega því sem lýtur að ráðuneyti hæstv. umhverfisráðherra. Því hefur verið haldið fram að ekki eigi að spara en síðan var sagt í umræðu um fjárlagatillögur til stofnana og verkefna á sviði umhverfismála að fé skorti til þeirra verkefna sem þar liggja undir í dag. Við sjáum ekki í þeim tillögum sem hér eru að gert sé ráð fyrir auknum fjárveitingum inn í þennan málaflokk. Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaðan á að flytja fé til þeirra auknu verkefna sem ráðgert er að færist til þessa nýja umhverfis- og auðlindaráðuneytis?

Ég spyr hæstv. ráðherra einnig: Hvað kemur í raun í veg fyrir að núverandi umhverfisráðuneyti setji ákveðin viðmið (Forseti hringir.) um sjálfbærni auðlinda sem tryggi skynsamlega umgengni um þær? Er eitthvað í íslenskum lögum (Forseti hringir.) sem kemur í veg fyrir að ráðuneytið vinni með þeim hætti?