140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:49]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins varðandi orð mín um að það væri ekkert kerfi þá vísaði ég þar til framsögu minnar um að ekki væri samkvæmni innan Stjórnarráðsins í því hvernig einstökum auðlindum er fyrir komið. Sums staðar eru rannsóknir, ráðgjöf og ákvörðun um vernd og nýtingu í einu ráðuneyti og sums staðar er því skipt á milli ráðuneyta eftir því hvaða auðlind er þar undir. Nægir þar að nefna muninn á vatni og jarðhita eða fiski. Það er mjög mismunandi hvernig því er fyrir komið.

Við gerum auðvitað ráð fyrir því að fjármagnið fylgi verkefnunum þannig að ef talað er um að færa verkefni mun fjármagnið væntanlega fylgja þeim. Mér finnst mikilvægast í þessari umræðu yfir höfuð að efnisleg rök séu fyrir breytingunni, að það snúist ekki um það eitt og sér að styrkja eitthvert ráðuneyti, það getur ekki verið markmið í sjálfu sér, heldur þurfa að vera fyrir því efnisleg rök. Þau tel ég vera fyrir hendi, ég tel mig hafa gert grein fyrir þeim í framsögu minni, þ.e. mikilvægi þess að yfirsýn yfir auðlindir sé fyrir hendi á einum stað í Stjórnarráðinu vegna þess hversu mikilvæg umsýsla og ráðstöfun þeirra er fyrir íslenskt efnahagslíf og atvinnulíf. Það er hinn efnislegi grunnur sem liggur þar til grundvallar.

Varðandi mismunandi áherslur okkar forsætisráðherra (Forseti hringir.) held ég að ég verði að biðja hv. þingmann um að skerpa aðeins á þeirri spurningu.