140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:51]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin svo langt sem þau ná. Það er knappur tími sem við höfum. Ég leyfi mér að vísa í þær ræður sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. umhverfisráðherra hafa flutt um þetta efni og ætla að eiga þann tíma til annarra nota sem annars færi í þau skoðanaskipti því að tíminn er knappur.

Ég spurði hæstv. ráðherra að því hvort eitthvað væri í íslenskum lögum sem meinaði því að ráðuneytið hefði heimildir til að setja viðmið um sjálfbærni sem ætlað er að tryggja ábyrga umgengni við náttúruna. Ég hef litið svo á að svo sé ekki og í ljósi þeirra orða sem hæstv. ráðherra hafði um góða samvinnu þvert á ráðuneytin tel ég að engin fyrirstaða sé í því efni.

Það er engin furða þótt spurt sé um með hvaða hætti menn sjá verkefni flytjast til innan stjórnsýslunnar og enginn efi er um að vilji þingmanna stendur til þess að draga saman í útgjöldum þar. En í ljósi þess að ætlunin er að breytingarnar taki gildi 1. september er lágmarkskrafa að (Forseti hringir.) nánari greinargerð fylgi þingsályktunartillögu í þessa veru um þau atriði sem spurt er um, ekki síst í ljósi þeirra orða sem höfð (Forseti hringir.) eru í þingsályktunartillögunni sjálfri. Farið er fram á að Alþingi styðji fyrirhugaðar breytingar.