140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:15]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var eiginlega að vonast til þess að hv. þm. Árni Páll Árnason gæti, þar sem hann er fyrrverandi ráðherra í þessari ríkisstjórn, útskýrt það undarlega mál sem hér er á ferðinni af því að tillagan er að öllu leyti órökstudd en ég heyri að hv. þingmaður er jafnundrandi og ég á þeim tillögum sem þar er að finna. Þingmaðurinn kallaði þetta óunnið, órætt og órökstutt mál hvað varðar efnahagsmálin.

Mig langar samt að spyrja hv. þingmann um það sem hann kom inn á í lok ræðu sinnar, að þetta væri breyting frá því sem lagt var upp með í stjórnarsáttmálanum. Ég hef reyndar lesið stjórnarsáttmálann og sé að hér er breytt algjörlega um kúrs. Hv. þingmaður telur að ríkisstjórnin hafi jafnvel ekki umboð til að gera þetta. Af hverju, að mati þingmannsins, eru þessar tillögur lagðar fram? Hver er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin ákveður að leggja fram þessar breytingar á stjórn efnahagsmála með engum rökstuðningi á neinn hátt, þvert á stjórnarsáttmálann, og við skulum bara tala hreint út, eftir að gerðar voru breytingar á ríkisstjórninni um síðustu áramót? Í fyrsta lagi, hver er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin heldur fram þessum hugmyndum? Í öðru lagi, var þetta rætt í þeirri ríkisstjórn sem hv. þingmaður sat í fram til áramóta eða kemur þetta bara núna, á örfáum vikum, inn í umræðuna í ríkisstjórn og í þingflokkum? Í þriðja lagi, hvernig stendur á því að mati þingmannsins að ekki er farið að tillögum erlenda sérfræðingsins Jännäris um Seðlabanka og Fjármálaeftirlit heldur ákveðið að setja Fjármálaeftirlitið undir atvinnuvegaráðuneytið? Mér finnst það nánast vera hebreska að láta sér detta í hug að gera það.