140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar spurningar hv. þingmanns um Seðlabanka og Fjármálaeftirlit tel ég að hefði verið gott að fá þá úttekt, og það var ákveðið vandamál sem fylgdi samþykkt Alþingis 63:0 um stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka og Fjármálaeftirliti að ekki fylgdu fjárveitingar til að láta hana fara fram. Við veltum því oft upp og það lá alveg ljóst fyrir að það mundi auðvitað hafa mikinn kostnað í för með sér því að þar yrðu að koma til erlendir sérfræðingar.

Það má segja að sú rannsókn sem nú stendur yfir með aðkomu þeirra erlendu sérfræðinga sem vinna núna að úttekt á þessu kerfi og umbreytingum á stofnanakerfinu sé ein tegund af slíkri úttekt. Við erum að fá í sjálfu sér mjög reynda og viðurkennda erlenda sérfræðinga til að gera þessa greiningu. Ég verð bara að segja alveg eins og er: Er ekki kominn tími til að við lærum það af hruninu að hafa frið um hagstjórn í landinu? Er ekki tími til kominn að við lærum það af hruninu að reyna að stilla þannig saman strengi að við búum til umgjörð utan um hagstjórn í landinu sem er til þess fallin að við þurfum ekki að rífast um hvern einasta hlut sem upp á kemur? Og er þá ekki ljóst að við þurfum að finna einhverja umgjörð sem er til þess fallin að tjalda lengur en til einnar nætur?

Núna eru þessir sérfræðingar að vinna að þeirri greiningu sem mætir að sumu leyti þeirri stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka og Fjármálaeftirliti sem hv. þingmaður nefndi. Það hlýtur að vera einboðið að bíða þeirrar niðurstöðu því að það er einskis virði að reyna að byggja upp samstillta hagstjórn sem byggir á aðferðafræði sem hefur engan trúverðugleika og byggir ekki á neinni efnislegri greiningu. Það liggur engin greining fyrir um hvernig eigi að ná markmiðum á þessum forsendum nema, eins og ég segi, menn hafi gefist upp á hugmyndinni um samstillta hagstjórn, að menn séu bara hættir við að reyna það verkefni. Ég trúi því ekki að óreyndu og þess vegna segi ég: Einu boðlegu vinnubrögðin fyrir Alþingi eru að fresta afgreiðslu þessa þáttar málsins fram til hausts, bíða niðurstöðu sérfræðinganna (Forseti hringir.) og láta fara fram vandaðri greiningu á kostnaði við ólíkar leiðir.