140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála því að það er auðvitað ekki álitlegt og þess vegna geri ég greinarmun á breytingum á Stjórnarráðinu sem byggja á efnislegum greiningum sem hafa verið ræddar einhvers staðar, útfærðar einhvers staðar. Til eru skýrslur um atvinnuvegaráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti, marga undanfarna áratugi. Það er ekki til ein skýrsla um þessa útfærslu, það er ekki til ein greining, það er ekkert til. Ég geri þar af leiðandi mikinn greinarmun á því.

Það er auðvitað, finnst mér, eðlilegt að menn haldi þann kúrs að klára það verkefni sem byrjað var á með hugmyndinni um efnahagsráðuneyti. Ég held nefnilega að efnahagsráðuneyti hafi verið mjög góð hugmynd og sé skynsamleg hugmynd. Einn af lærdómunum af hruninu er einmitt sá að okkur skortir ólík sjónarmið. Ég er ekki viss um að sú skörun sem er á milli fjármálaráðuneytisins og efnahagsráðuneytisins í dag sé slæm. Þvert á móti held ég að hún sé hjálpleg og það hafi hjálpað okkur til dæmis í að þroska áfram hugmyndir eins og í afnámi hafta og í ýmsu öðru sem við vorum að takast á við í minni ráðherratíð í efnahagsráðuneytinu að það var ekki einn ráðherra að kokka í því heldur tveir. (Forseti hringir.) Ég held að það hafi hjálpað okkur, ég held að það hafi haft jákvæð áhrif. (Forseti hringir.) Sú hugmynd að það sé best að útrýma öllum ólíkum viðhorfum til að ná niðurstöðu er hugmynd sem mér geðjast ekki.

(Forseti (ÁI): Þingmenn eru beðnir um að virða ræðutíma.)