140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:35]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil í fyrsta lagi segja að ég tel að þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur þegar ráðist í í fyrri áföngum í endurskipulagningu Stjórnarráðsins hafi heppnast vel. Ég tel að hið nýja innanríkisráðuneyti og hið nýja velferðarráðuneyti sýni að með því að standa vel að slíkum málum sé hægt að ná miklum árangri, bæði samlegðaráhrifum, hagræðingu og styrkja þá starfsemi sem í hlut á. Ég tel að við eigum af kjarki að halda áfram á þessari braut og ljúka endurskipulagningu Stjórnarráðsins. Ég er talsmaður þess að þessi mál séu þróuð í anda þess sem hefur gerst í löndunum í kringum okkur, t.d. á öðrum Norðurlöndunum þar sem almennt er orðið viðurkennt og óumdeilt að framkvæmdarvaldið á að hafa mikið svigrúm til að skipa sínum verkum sjálft. Það er alsiða þar, bæði innan kjörtímabila eða í upphafi þeirra, að gerðar séu talsverðar breytingar á ráðuneytum sem breyttur tíðarandi kallar á eða aðstæður að öðru leyti. Ég get nefnt þar sem dæmi nýju ríkisstjórnina í Danmörku þar sem henni tengdust býsna umfangsmiklar breytingar á ráðuneytum og verkefnaflutningum milli ráðuneyta í talsverðum mæli.

Það er að sjálfsögðu ágætt og eðlilegt að ræða þetta á Alþingi og ég held að það sé gott form að það sé gert í formi einfaldrar þingsályktunartillögu þar sem meginniðurstaðan, fjöldi ráðuneytanna og heitin er borið undir Alþingi, en ég tel að framkvæmdarvaldið eigi síðan að hafa mikið svigrúm til að útfæra breytingarnar, enda liggur það þar að gefa út forsetaúrskurð um verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins og á að gera eðli málsins samkvæmt með sama hætti og ráðuneytum og framkvæmdarvaldinu dettur að sjálfsögðu ekki í hug að skipast til um hvernig Alþingi til dæmis gengur frá sínu skipulagi, sinni nefndaskipan, sínum störfum. Það er einfaldlega þannig að þar kemur til sögunnar sjálfstæði hvors valdþáttarins eða stjórnsýslustigsins um sig.

Varðandi það sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi áðan þá tel ég að þessi mynd sé tiltölulega skýr. Við erum að fara hér niður í átta ráðuneyti, þau verða öll svipuð að stærð og svipuð að burðum og að því leyti til mun Stjórnarráðið samsvara sér miklu betur en það gerði áður. Við erum að mæta kalli tímans í sambandi við umhverfis- og auðlindamál, að styrkja stöðu þeirra mála í anda þróunar umhverfisréttarins og í vaxandi mikilvægi þess málaflokks. Að mínu mati er löngu tímabært að búa til atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti þar sem málefni alls hins almenna atvinnulífs og nýsköpun í atvinnumálum eru saman á einum stað og miklu meira jafnræði er þar með sett upp milli ólíkra atvinnugreina.

Við getum tekið mestu vaxtargrein íslensks atvinnulífs undanfarin ár og langt árabil og þá atvinnugrein sem sækir að sjávarútvegi og stóriðnaði sem gjaldeyrisskapandi atvinnugrein númer eitt, hver hefur staða hennar verið að þessu leyti? Hún hefur aldrei átt ráðuneyti og það er einn maður starfandi á skrifstofu í því ráðuneyti sem fer með þau mál í dag. Er það boðlegt? Nei, það er ekki boðlegt. Með tilurð öflugs atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis gefst færi á að endurskipuleggja þetta, endurskipuleggja skrifstofur atvinnulífsins í sterku ráðuneyti með samlegðaráhrifum af sérfræðingum og mannskap sem til þarf.

Varðandi verkaskiptinguna milli atvinnuvegaráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins tel ég að því sé lýst vel í tillögunni. Að sjálfsögðu kallar það á samstarf þessara ráðuneyta, það þarf að búa um og formgera það samstarf enda eru þetta systur, verndun og nýting, og það kallar á að brýr séu þarna á milli í formi þess að á aðra hliðina mótar umhverfis- og auðlindaráðuneyti eðli málsins samkvæmt viðmið fyrir sjálfbæra nýtingu og á hinum endanum stjórnar atvinnuvegaráðuneytið nýtingunni og gefur út ákvarðanir um hana. Á milli þessara aðila eru síðan gagnvegir um, mótun tækja og aðferða til að ná fram annars vegar sjálfbærri nýtingu og tryggja hana og hins vegar hagkvæmni og skynsamlegri stjórnun þegar kemur út í nýtingarþættina.

Ég tel að þetta sé stórkostleg framför og það sé botnfrosin íhaldssemi og gamaldagshugsunarháttur að þora ekki að horfa á þetta í nýju ljósi nýrra tíma. Ég nefni bara mikilvægi þess, t.d. fyrir sjávarútveginn, að menn hafi sjálfbæra nýtingu og ábyrga stjórnun að leiðarljósi vegna markaðshagsmuna. Við munum ekkert komast upp með það, Íslendingar, að hegða okkur hvernig sem er í þessum efnum, við fáum það bara harkalega í bakið á okkur ef við getum ekki sýnt fram á að við byggjum þessa þætti upp þannig saman að við getum staðfest og staðið á því og sýnt það að við stundum ábyrga nýtingu, hún sé sjálfbær og hún standi undir nafni sem slík. Annars fáum við ekki vottun o.s.frv.

Varðandi Hafrannsóknastofnun er gert ráð fyrir því að stjórnunarfyrirkomulagi hennar verði breytt, að bæði ráðuneytin eigi faglega aðkomu að stofnuninni en hún verði áfram vistuð þar sem hún hefur verið, a.m.k. fyrsta kastið.

Varðandi efnahags- og viðskiptaráðuneytið og það sem þar er lagt upp þá er það auðvitað rangt í fyrsta lagi að hér sé órökstutt, ókannað og órannsakað mál, það er að sjálfsögðu rangt. Það hefur verið gert og undanfarnir þrír, fjórir mánuðir notaðir dyggilega til þess. Það hefur verið greint og fengnir til þess sérfræðingar á sviði efnahagsmála og hagstjórnar að vinna með þeim sem eru meira sérfróðir á sviði stjórnsýslunnar sem hafa á grundvelli verulegrar reynslu flokkað og skilgreint þau verkefni.

Það hafa verið skoðuð fordæmi og þeirra er ekki langt að leita. Ég verð að segja að ég er dálítið undrandi að heyra talað um það fyrirkomulag sem hér er lagt upp með, að til verði öflugt móðurráðuneyti ríkisfjármála og efnahagsmála sem að sjálfsögðu ber þá ábyrgð á samræmdri hagstjórn og sér um hana í samstarfi eftir atvikum við fjármálamarkaðinn, þegar við höfum þau fordæmi fyrir okkur, undir nefinu á okkur, frá Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Hér er verið að leggja til sama fyrirkomulag. Og ætlar einhver að halda því fram að þar sé ekki stunduð samræmd hagstjórn? Ég held ekki.

Varðandi það sem vitnað er í Kaarlo Jännäri þá er vissulega rétt að hann lagði mikla áherslu á það annars vegar að ábyrgð efnahagsmála væri ekki dreift á mörg ráðuneyti eins og hér var því miður, og lagði mikla áherslu á að fjármálamarkaðurinn væri á einum stað. Hann er það hér og eftirlitið með honum. Fjármálamarkaðurinn sem slíkur og fjármálaþjónusta sem atvinnustarfsemi er prýðilega sett þar sem hún verður í þessu fyrirkomulagi.

Þegar kemur hins vegar að fjármálunum í skilningi fjármálastöðugleika þurfa vissulega fleiri að leggja þar hönd á plóg og það verður alltaf þannig nema menn búi bara til eitt ráðuneyti sem fari með þetta allt. Það er ekkert vandamál að koma því þannig fyrir og þess vegna eru meðal annars hugmyndir um stöðugleikaráð þegar til þeirra hluta kemur. Ég held að við séum einmitt að draga og höfum að þessu leyti dregið mikla lærdóma af hruninu.

Ég ætla að segja það hér alveg hiklaust að ég er algjörlega sannfærður um að það hefði verið betra fyrir okkur að hafa eitt öflugt móðurráðuneyti ríkisfjármála og efnahagsmála árin fyrir hrunið. Það er alveg hárrétt hins vegar að reynslan af því að dreifa þessu, eins og gert var þá, á þrjú og jafnvel fleiri ráðuneyti var hörmuleg og togstreitan sem uppi var, bæði milli þeirra kannski að einhverju leyti og svo út í stofnanirnar sem þarna áttu að leika lykilhlutverk, var ekki góð.

Með þessu er síður en svo verið að slá neinni rýrð á það mikilvæga verkefni að hér sé ástunduð samræmd hagstjórn en til þess þarf burði og menn stóðu í raun og veru frammi fyrir því vali: Eigum við að stórefla efnahags- og viðskiptaráðuneytið með verulegum nýjum fjármunum og efla fjármálaráðuneytið líka vegna þess að það veikir fjármálaráðuneytið að það missti út sína efnahagsskrifstofu og þjóðhagsspár og annað í þeim dúr? Það hefði kostað verulega fjármuni á tveimur stöðum í stjórnsýslunni ef við hefðum valið að fara þá leið. Það var vissulega skoðað og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, hv. þm. Árni Páll Árnason, hefur mikið til síns máls að menn hefðu ef til vill strax eftir 2009 þurft að fylgja betur eftir ákvörðuninni sem þá var tekin en þetta er sama ákvörðunin að vista þessa hluti áfram á einum stað en ekki mörgum og það er fyrirkomulagsatriði hvernig það er gert.

Ég tel, a.m.k. eins og aðstæður eru nú og verða væntanlega einhver ár, að það hafi mikla samlegðarkosti að gera eitt móðurráðuneyti ábyrgt fyrir þessum mikilvægu verkefnum og þannig er það víða gert, samanber Noreg, Svíþjóð og Finnland þar sem fjármálaráðuneytin fara með yfirstjórn efnahagsmála og seðlabankarnir eru vistaðir hjá þeim. Einhver spurði um Kanada, í Kanada heyrir seðlabankinn undir fjármálaráðuneytið. Þannig að það er oft alveg eins reglan heldur en hitt.

Auðvitað eru það réttmæt sjónarmið og má spyrja um að fjármálamarkaðurinn og fjármálaþjónusta sem atvinnustarfsemi tilheyri atvinnuvegaráðuneyti versus þetta fyrirkomulag. Allar lausnir í þessum efnum hafa sína kosti og galla en ég er sannfærður um að heildarmyndin sem með þessu er að teiknast upp af Stjórnarráði Íslands er góð. Við erum að fá átta burðug, nokkuð jafnstór ráðuneyti sem eiga að hafa getu og mannafla og kraft til að standa vel að þeim mikilvægu verkefnum sem þau eiga að sinna. Ég hvet menn til þess að skoða þetta og ræða þetta málefnalega og ekki af of mikilli íhaldssemi og hræðslu við breytingar því að menn komast ekki langt ef það ræður alltaf för.