140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að valda hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra vonbrigðum með það að mér finnst að við eigum nú að nálgast þetta viðfangsefni af íhaldssemi (Gripið fram í: Nú, jæja.) enda er í þessu tilviki verið að taka ákvarðanir um að breyta frá fyrri ákvörðunum þessarar ríkisstjórnar, t.d. um skipan efnahagsmála, sem voru auðvitað umdeildar á sínum tíma og nú er verið að fara í einhverja aðra stefnu með þetta. Hugsanlega hefðu menn á sínum tíma átt að klára stefnumótunarvinnuna áður en farið var í lagabreytingarnar. Ég velti fyrir mér hvort ekki þyrfti að gera það í þessu tilviki líka. Hér er lögð fram þingsályktunartillaga sem felur í sér ákveðnar meginhugmyndir. Þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar tala í þessari umræðu má ráða af orðum þeirra að til séu miklu nánari útfærðar áætlanir um það hvernig þetta verði í framkvæmd en við þingmenn sjáum þær ekki, við lesum þær ekki út úr greinargerð með þessari tillögu.

Ég vil spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann telji að fyrirliggjandi séu nægilega skýr áform um útfærslu þessarar breytingar til að hægt sé að koma henni í framkvæmd fyrir 1. september næstkomandi.