140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:47]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Já, frú forseti, ég tel það. Við höfum lært mikið og kominn er mannskapur sem hefur orðið mikla þekkingu á því hvernig þarf að standa að því að undirbúa svona breytingar og farið hefur verið fram í krafti þess lærdóms. Það fólk sem vann að sameiningu innanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytis og gerþekkir ferli af þessu tagi hefur undirbúið málin. Það hefur verið rætt á þeim nótum við starfsmenn. Við höfum reynslu í því hvernig best er að takast á við þau mál, leysa þau, þess vegna húsnæðismál eða önnur praktísk verkefni. Ég tel að við séum vel undir það búin að klára þessar breytingar.

Varðandi efnahagsmálin lít ég ekki svo á að hér sé um einhverja grundvallarkúvendingu eða stefnubreytingu að ræða frá 2009 eins og ég áður sagði. Við erum að tala um að vista ábyrgð þeirra mála á einum stað en leggja þau nú með ríkisfjármálunum, það hefur mikla kosti. Ég get farið í langar ræður ef menn vilja um það og ég hef reyndar alllengi verið þeirrar skoðunar að við ættum að fara norsku leiðina í þessum efnum, ef við köllum hana svo, vegna þess að ríkisfjármálin eru kjölfestan og þau þurfa alltaf að vera mótorinn í sterkri, ábyrgri hagstjórn. Þau verða að vera í lagi og það er mjög nærtækt að mörgu leyti að tengja hina almennu hagstjórn og ábyrgðina á þeim og peningamálastefnuna og Seðlabankann þar saman við og það gera mjög margar þjóðir, (Forseti hringir.) ekki síst þær sem hafa náð góðum árangri í efnahagsmálum á umliðnum árum.