140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hægt að segja margt um ræðu hæstv. ráðherra og ég vil segja að þegar talað er um þetta nýja fjármálaráðuneyti þá er eins og verið sé að ræða um móður allra ráðuneyta, þar eigi allt að fara fram sem máli skiptir. Ég er ósammála hæstv. ráðherra með það, ég er ekki búinn að sjá rökin fyrir því að fara þessa leið. Ég hefði haldið að það væri mikilvægt fyrir okkur að vera með sterkt efnahags- og viðskiptaráðuneyti.

Mig langar hins vegar að spyrja út í orð hæstv. ráðherra þar sem hann talaði um að tvö ráðuneyti hefðu faglega aðkomu að Hafrannsóknastofnun. Það hljómar ekki vel í mínum eyrum að tvö ráðuneyti séu að fikta þar í sömu stofnuninni.

Síðan sagði hæstv. ráðherra að stofnunin yrði vistuð fyrsta kastið í atvinnuvegaráðuneytinu. Hvað þýðir það? Stendur til að færa þá stofnun yfir í auðlindaráðuneytið? Er búið að undirbúa það mál með einhverjum hætti og hvenær mun það þá verða að veruleika eða hver eru plön ráðherra varðandi það að færa stofnunina yfir í auðlindaráðuneytið?