140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:52]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar ég tala um faglega aðkomu að þeirri stofnun þá er málum skipað þannig í dag að þar er stjórn sem hefur kannski ekki mjög vel skilgreint hlutverk og í reynd hefur kannski verið faglegur vettvangur hagsmunaaðila og annarra sem komið hafa að málefnum stofnunarinnar. Menn hafa því rætt þann kost að í stað stjórnar yrði einhvers konar faglegur vettvangur, fagráð sem yrði skipað af fulltrúum beggja ráðuneytanna og eftir atvikum utanaðkomandi aðila og fræðasamfélagi frá hagsmunaaðilum og öðrum slíkum sem hefði meira faglegt hlutverk en síður rekstrarlegt og stjórnunarlegt. Þetta held ég að geti verið mjög góður vettvangur, samstarfsvettvangur þessara aðila sem eðli málsins samkvæmt þurfa að koma þarna saman.

Hafrannsóknastofnun fer með samsett hlutverk. Hún er að hluta til að sinna hreinum grunnrannsóknum. Hún er að miklu leyti að sinna hagnýtum rannsóknum og síðan mælingum, útreikningum og ráðgjöf og þar af leiðandi er að mörgu leyti mjög eðlilegt að að henni komi úr ólíkum áttum hugsanlega fulltrúar fræðasamfélagsins, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvegaráðuneytisins. (Forseti hringir.) Þegar ég tala um að hún verði vistuð á sama stað fyrst um sinn er ég að vísa meira til þess að til dæmis á vegum Vísinda- og tækniráðs er heilmikil vinna í gangi um rannsóknastofnanaumhverfið í heild sinni og hvert það kann að leiða innan einhverra ára skal ósagt látið.