140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki alveg nákvæmlega hvernig staðið er að því við auðlindanýtinguna í sjávarútveginum, þ.e. með svokallaðri 20% aflareglu. Ég sé ekki hvaða rökstuðningur er fyrir því þegar menn eru að tala um breytingar á Stjórnarráðinu, hvað hún kemur því við. Það er það sem ég var að spyrja um.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um eitt sem ég sakna töluvert og mun fara yfir í ræðu minni á eftir til að taka annan vinkil á þessu máli. Nú er engin kostnaðargreining sem fylgir þessari þingsályktunartillögu. Í ljósi reynslunnar við fyrri sameiningu ráðuneyta sem menn hafa talað mikið um að hafi heppnast mjög vel, sem er ekki alls kostar rétt og ég mun fara yfir það á eftir — hæstv. ráðherra segir að það muni kosta mjög mikið að styrkja bæði fjármálaráðuneytið og efnahags- og viðskiptaráðuneytið til að hafa sameiginlega stjórn á efnahagsmálunum, hvar er þá greiningin á því, hvar getum við sett puttann á það og gögnin sem mæla með því að fara þessa leið? Hvers vegna er ekki kostnaðargreining með þingsályktunartillögunni? Ég geri mér grein fyrir að hún á að vera með frumvörpum en ekki þingsályktunartillögum, en í svona mikilvægu máli, þar sem menn eru að vísa til þessarar hagræðingar, þá finnst mér að hún ætti að fylgja með.