140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:00]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er reyndar gerð grein fyrir kostnaði og sparnaði sem hefur hlotist af sameiningu stóru ráðuneytanna tveggja, fjallað er um það sérstaklega og reynsluna af henni og það má að sjálfsögðu draga ályktanir af því sem þar blasir við. Sumir hlutir eru augljósir eins og sparnaðurinn beint af því að fækka ráðherrum, ráðuneytisstjórum, ráðherrabílstjórum, aðstoðarmönnum og þessu einfalda. Síðan verður væntanlega mikil fækkun skrifstofustjóra. Það sameinast stoðeiningar sem nýtast betur, miðlæg þjónusta fyrir ráðuneytin, afgreiðslu, símsvörun og annað í þeim dúr þannig að það eru augljós samlegðar- og sparnaðaráhrif í slíkum þáttum. En að sjálfsögðu hverfa verkefnin ekki og þeim þarf að sinna og það má ekki leggja þann misskilning í þetta að menn séu að nota þetta sem aðferð til að komast eitthvað ódýrara frá þeim. Þvert á móti er hugsunin akkúrat sú að hægt sé að sinna þeim betur með samlegðaráhrifunum í öflugri einingum, stærri og burðugri skrifstofum og meiri sérhæfingu, til dæmis í stærra ráðuneyti sé hægt að hafa sérstakt lögfræðisvið sem kannski er ekki viðráðanlegt í mjög lítilli einingu o.s.frv.