140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann frekar út í það sem hann kom inn á í ræðu sinni en það eru vinnubrögðin við málið í heild sinni sem er nú lagt fram með þeim hringlandahætti sem hefur einkennt breytingar á Stjórnarráðinu hjá hæstv. ríkisstjórn. Getur hv. þingmaður ekki tekið undir að skynsamlegra hefði verið að vinna þetta þverpólitískt eins og hér hefur verið kallað eftir, af því að þessar breytingar eiga að taka gildi einungis sex mánuðum áður en hæstv. ríkisstjórn — í síðasta lagi — fer frá. Vonandi verður hún farin fyrr. Mig langar að spyrja um vinnubrögðin og einnig greiningu málsins. Nú hefur komið fram í máli hæstv. allsherjarráðherra að til séu bunkar af möppum og upplýsingum sem styðji þessa röksemdafærslu og því spyr ég hv. þingmann hvort honum hefði ekki fundist eðlilegt að eitthvað bitastæðara væri í þessari þingsályktunartillögu svo hægt væri að gera sér grein fyrir þessum breytingum. Ákveðnar fullyrðingar komu fram í ræðum hæstv. ráðherra um að þær gætu sparað í ríkisfjármálum og þar fram eftir götunum. Það fylgir ekki með í greinargerð með þingsályktunartillögunni.

Eins og við þekkjum báðir er ekki lagt fram kostnaðarmat frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Getur hv. þingmaður tekið undir að það hefði verið æskilegt að matið fylgdi einmitt með þingsályktunartillögunni? Reynslan af sameiningu í innanríkisráðuneyti annars vegar og velferðarráðuneyti hins vegar út frá kostnaði séð segir okkur að kostnaðurinn var miklu meiri en áætlað var. Ég mun fara yfir það í ræðu minni á eftir. Það er oft sagt: Jú, þetta mun spara til framtíðar, en það þarf ekki að gerast í núinu og það er alltaf afsökunin, sérstaklega í ljósi þess að í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að í nærri 80% tilfella hafi sameiningar og sparnaðaráform við þær mistekist.