140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:37]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Ég verð að trúa hæstv. forseta fyrir því að ég er alveg undrandi á því máli sem verið hefur til umfjöllunar í dag, bæði því hvernig málið er lagt fram fyrir þingið, tillögunni sjálfri, þeim rökstuðningi, ef rökstuðning skyldi kalla, fyrir þeim hugmyndum sem þar er að finna og einnig þeim umræðum sem orðið hafa í dag um aðdraganda þessa máls, tilgang þess, hvers vegna málið kemur fram með þeim hætti sem það hefur gert o.s.frv. Af því tilefni langar mig að velta því upp hvaða ríkisstjórn það er sem leggur þessa tillögu fram. Er það ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem tók við völdum hér 2009 og samþykkti stjórnarsáttmála sem er enn þá í gildi að ég hygg og hefur verið samþykktur af stofnunum viðkomandi stjórnarflokka? Eða er þetta einhver önnur ríkisstjórn sem er með óljósan stjórnarsáttmála sem enginn veit hvað felst í? Ef maður les stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er allt annað á ferðinni þegar kemur að skipan Stjórnarráðsins en það sem hér er um að ræða. Hér stendur skýrt, með leyfi virðulegs forseta, í þeim stjórnarsáttmála:

„Í nýju efnahags- og viðskiptaráðuneyti verður almenn hagstjórn, lagaumgjörð og eftirlit með fjármálamarkaði, mat á þróun og horfum í efnahagsmálum. Enn fremur verða þar málefni er tengjast umgjörð íslensks viðskiptalífs.“

Hér hafa verið haldnar margar ræður af hálfu þingmanna stjórnarmeirihluta um þann lærdóm sem við þurfum að draga af þeim atburðum sem urðu hér haustið 2008. Ég get tekið undir margt af því sem þar hefur verið sagt um að við þurfum að vanda til verka og vanda okkur mikið. Ég spyr mig: Hvað merkja þær ræður þegar litið er til þess máls sem hér er um að ræða? Hvað fólst í þeim ræðum þegar litið er til þeirra hugmynda sem eru fram bornar? Ákveðið var af hálfu þessarar ríkisstjórnar að færa efnahagsmál til í Stjórnarráðinu og frá því að hæstv. ríkisstjórn hófst handa við að hreyfa stjórn efnahagsmála til í Stjórnarráðinu hefur verið þvílíkt los á málum að með endemum er. Nú stendur sem sagt til, svo dæmi sé tekið, að Seðlabanki Íslands sé færður undir þriðja ráðuneytið á þessu kjörtímabili. Lengst af þótti það skipta verulega miklu máli að forsætisráðherra þjóðarinnar hefði yfirumsjón og yfirsýn yfir efnahagsmál. Þess vegna var brýnt að mati margra og vísra manna að Seðlabanki Íslands væri á forræði hæstv. forsætisráðherra. Það var síðan mat þessarar ríkisstjórnar að óþarft væri að stjórn efnahagsmála væri á verksviði hæstv. forsætisráðherra, hann ætti fyrst og fremst að vera verkstjóri og að öll mál sem sneru að einstökum málaflokkum ættu að fara burt úr ráðuneytinu. Í því skyni var ákveðið að færa efnahagsmál í sérstakt ráðuneyti efnahags- og viðskiptamála og þar með þær stofnanir sem um þau mál véla, til dæmis Seðlabanka Íslands. Hæstv. forsætisráðherra vísaði sem sagt frá sér stjórn efnahagsmála. Ekki hafði langur tími liðið þegar það rann upp fyrir forsætisráðuneytinu að það væri frekar óhentugt að þar skyldi enginn efnahagsráðunautur vera starfandi og var þá ráðinn efnahagsráðunautur í forsætisráðuneytið, sem ég held að hafi verið skynsamlegt af hálfu hæstv. forsætisráðherra að gera.

Nú er tekin sú ákvörðun að leggja niður efnahagsráðuneytið og fara með verkefnin í fjármálaráðuneytið. Allt er það gert á grunni þess að hér þurfi að vera vönduð stjórnsýsla, eða eins og segir í stjórnarsáttmála virðulegrar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, þeirrar sem tók við vorið 2009, þótt ég viti ekkert hvaða ríkisstjórn það er sem leggur þetta mál fram, með leyfi forseta:

„… að vanda stjórnsýsluhætti og efla traust almennings á stofnunum hins opinbera.“

Er þetta mál til þess fallið? Hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu að búið væri að fara mjög rækilega yfir þetta mál, greiningarvinna og fagleg athugun. Málið fer í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og verður tekið þar til umfjöllunar. Sú ákvörðun hæstv. forsætisráðherra að láta ekki fylgja með þá greiningarvinnu sem að baki þessu er og vísað hefur verið til í umræðunni — ég tek fram að ég geri mér grein fyrir því að þegar kemur að breytingum á auðlindaráðuneytinu að ríkisstjórnin hefur unnið mjög mikið þar og hefur mjög ríkar skoðanir á því að setja auðlindamál öll saman undir einn hatt, það er skoðun ríkisstjórnarinnar. Ég hygg að auðvelt sé að kalla eftir því. En hvað hitt málið, stjórn efnahagsmála, varðar hefði verið mjög fróðlegt, af því að hér er um stefnubreytingu að ræða, að einhver rökstuðningur fylgdi þessari tillögu fyrir því hvers vegna menn ákveða að gera þetta og kostnaðinum við það. Fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra að heppilegt væri að samnýta starfsmenn, eftir því sem mér skildist, sem verið hefðu í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Ef ég hef tekið rétt eftir, hæstv. forsætisráðherra, kom fram að menn þyrftu auðvitað að sinna þessum verkefnum, það væri mikilvægt, það þyrfti að bæta við starfsfólki í fjármálaráðuneytið og að það væri þá einhvern veginn hægt að spara með því að samnýta starfsmenn.

Það skiptir engu máli hvar verkefni eru hýst, það þarf alltaf starfsmenn til að sinna þeim, ekki satt? Það breytir engu hvort verkefnin eru í fjármálaráðuneyti, efnahagsráðuneyti eða forsætisráðuneyti, það þarf alltaf þekkingu og starfsmenn til að sinna verkefnunum. Allt það finnst mér skorta að sé rökstutt í þessari tillögu.

Síðan hefur það bæst við að fyrrverandi hæstv. efnahagsráðherra hefur ekki getað útskýrt fyrir þingheimi hvers vegna þessi breyting er lögð til, ég spurði hann að því sérstaklega um það áðan. Það verður bara að segjast eins og er að hann gat ekki veitt svör við því. Það virðist sem þessi skipan mála hafi ekki verið rædd í þeirri ríkisstjórn eins og hún var skipuð fram að áramótum 2012, heldur hafi þessi stefnubreyting átt sér stað eftir að breyting var gerð í ríkisstjórninni.

Ég verð að segja það, bara vegna ríkisstjórnarinnar sjálfrar og fyrst hún vill gera þessar breytingar, að það hefði verið til hægðarauka fyrir hana sjálfa í vinnslu málsins í þinginu að hafa þessi gögn með tillögunni þannig að þingmenn gætu lesið þau og kynnt sér efni þeirra í stað þess að þurfa að kalla eftir því öllu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd með öllum þeim tíma sem það tekur. Það er alveg ljóst að menn munu kalla eftir rækilegum upplýsingum. Það er enginn vafi á því að menn munu vilja fá þær upplýsingar og þau gögn og það sem hæstv. forsætisráðherra kallar greiningarvinnu inn í nefndina. Hæstv. forseti. Hefði ekki verið heppilegra, í ljósi þess að það liggur ekki einu sinni fyrir að þingmenn stjórnarmeirihlutans í heild sinni styðji þetta mál, að þessi gögn lægju bara fyrir nú þegar, í fyrri umr., fyrst þau eru öllsömul til en ekki láta nefndina þurfa að byrja á því að kalla eftir öllum þessum gögnum? Það veldur því þá að þessar upplýsingar birtast þingheimi væntanlega í síðari umr. um tillöguna.

Mér finnst mjög undarlegt hvernig allt þetta mál er vaxið og mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra, ég geri ráð fyrir að hún muni ljúka umræðunni í kvöld þegar umræðu um tillöguna lýkur, hvers vegna hún telji það til bóta að gera þessa breytingu. Hefði ekki verið skynsamlegra að halda áfram með þá stefnu sem hæstv. forsætisráðherra lagði sjálf til mjög nýverið með stofnun efnahags- og viðskiptaráðuneytisins? Þurfum við ekki að hafa einhverja festu í Stjórnarráðinu? Hver er tilgangurinn með því að gera þessa breytingu núna? Ég get líka tekið undir að það er dálítið undarlegt að gera þessa breytingu svona skömmu fyrir lok kjörtímabils. Mér hefur nú heyrst að það sé það sem þeir erlendu sérfræðingar sem komið hafa að máli við okkur, Jännäri, hafa talað fyrir, að það skipti máli hér að líta til hlutanna til lengri tíma. Hefði ekki verið nær að halda sig við þá stefnumörkun sem ríkisstjórnin lagði sjálf fram mjög nýverið (Forseti hringir.) í staðinn fyrir að gera slíka breytingu á þessari tillögu í lok kjörtímabils að því er virðist (Forseti hringir.) algjörlega órökstutt?