140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:50]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mjög mikilvægt, ekki bara eftir mikinn vanda eins og hér skall á með falli bankanna 2008 og var svo sannarlega mikið áfall fyrir okkur Íslendinga, ekki bara eftir slíka atburði heldur almennt finnst mér skynsamlegt að breytingar sem gerðar eru á skipulagi stjórnsýslunnar séu gerðar rólega, yfirvegað og með langtímahugsun að leiðarljósi.

Nú er það svo að hæstv. ríkisstjórn sem hv. þm. Björn Valur Gíslason styður ákvað í upphafi þessa kjörtímabils að skynsamlegt væri að stofna efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Það væri skynsamlegt og að hennar mati mikilvægur lærdómur af þeim atburðum sem urðu að leggja sérstaka áherslu á stjórn efnahagsmála og hagstjórnar með því að stofna sérstakt efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Mig langar til að fá útskýringar á því hjá þingmönnum stjórnarmeirihlutans, og ég mun kalla eftir því í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hvers vegna ríkisstjórnin telur, svo skömmu eftir að sú ákvörðun var tekin, nauðsynlegt og án þess að rökstuðningur sé lagður fram fyrir því í þessari tillögu að gera slíka breytingu á stjórn efnahagsmála að færa þau burt úr því ráðuneyti sem þá var stofnað yfir í fjármálaráðuneytið. Þetta er bara eðlileg spurning og það væri óskandi að við gætum átt um það eðlilega umræðu.

Um það hvort ég sé tilbúin til að gera breytingar á skipan Stjórnarráðsins þá er alveg augljóst mál að við hljótum öll að vera sammála um breytingar sem eru til þess fallnar að bæta stjórnsýsluna. Ég held reyndar að ég hafi haldið margar ræður um það í þinginu að það sé mín skoðun (Forseti hringir.) að skynsamlegt sé að færa Fjármálaeftirlitið aftur undir Seðlabankann en það hafi ekki verið skynsamlegt eins og gert var á sínum tíma að stofna sérstakt fjármálaeftirlit.