140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Spurningin um Hafrannsóknastofnun er mjög góð, sérstaklega þegar menn ætla sér að koma með sérstakt auðlindaráðuneyti. Þá má segja að Hafrannsóknastofnun gæti þeirrar auðlindar sem sjávarútvegurinn er, fiskstofnar við Íslandsstrendur. Hafrannsóknastofnun á að gæta þess að sú auðlind haldist. Hún ætti samkvæmt því að vera í auðlindaráðuneytinu. En svo má segja að sjávarútvegsráðuneytið fjalli um þá atvinnugrein sem er einmitt mest háð Hafrannsóknastofnun. Þetta vildi ég gjarnan að menn færu ítarlega í gegnum. Hvar á þessi stofnun að eiga heima og getur verið að það að leggja svona mikla áherslu á auðlindaráðuneyti geti skaðað atvinnuvegaráðuneytið sem menn ætla að koma með?

Varðandi stjórnsýsluna og það hvernig hún fór í hruninu er ég sammála því að það var mjög slæmt samband á milli Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Það kom fram í skýrslunni miklu að á milli þeirra ráðherra sem fóru með þau ráðuneyti var ekkert samband í heilt ár. Það er engan veginn góð stjórnsýsla þannig að ég tel nauðsynlegt að breyta einhverju, en að breyta rétt fyrir kosningar finnst mér fráleitt. Svo kemur ný ríkisstjórn sem væntanlega vill setja sitt merki á stjórnsýsluna og ætlar að breyta aftur. Mér finnst þessar breytingar hreinlega of hraðar og miklar og þær verða ekki komnar í gagnið þegar menn fara að breyta aftur.