140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:08]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reyndi að hlýða á svar hv. þingmanns en fékk ekki svar við því hver skoðun hans á til dæmis Hafrannsóknastofnun er. Hann velti upp einhverjum hugmyndum en ef ég þekki hv. þingmann rétt hefur hann einhverja skoðun á þessu, ég er handviss um það. Það má taka önnur dæmi, skógræktina sem slíka, hvar eiga svona verkefni heima í stjórnkerfinu að mati hv. þingmanns?

Hv. þingmaður nefndi hér að það væri verið að gera breytingar á röngum tíma. Það hefur oft verið viðkvæðið í þessari umræðu og var viðkvæðið þegar heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti voru sameinuð á sínum tíma. Þá var talað um að þetta væri rangur tími, þetta væri ekki rétti tíminn til að fara í svona breytingar og fundin einhver ástæða fyrir því. Sama er með þær breytingar sem urðu samhliða með innanríkisráðuneytið, það þótti ekki rétti tíminn.

Og nú þykir ekki rétti tíminn vegna þess að eftir ár eru kosningar og þá mun næsta ríkisstjórn hugsanlega breyta ákvörðunum þeirrar ríkisstjórnar sem situr nú. Þess vegna er það ekki rétti tíminn af því að við ætlum að bíða og sjá hvaða ríkisstjórn kemur eftir næstu kosningar. Þetta eru engin rök, virðulegi forseti, að mínu mati. Það stenst ekki mál í svona umræðu að tímasetningin sé röng. Við erum að ræða efnislega um málið og hvaða afstöðu við höfum til þess og ég hvet hv. þingmann til að upplýsa um afstöðu sína í þeim efnum. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á þeim breytingum sem hafa verið gerðar til þessa, t.d. á þessu kjörtímabili? Flestar breytingar voru reyndar gerðar áður en þetta kjörtímabil byrjaði, langflestar á tímabilinu 1995–2003, eða sennilega 1995–2007, og oft fyrirvaralitlar. Hvaða álit hefur þingmaðurinn á þeim breytingum sem þegar höfðu verið gerðar? Telur þingmaðurinn að það eigi að ganga til baka (Forseti hringir.) með þær?