140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér virðist vera á ferðinni eitthvert gælumál hæstv. forsætisráðherra og hin raunverulegu markmið eru ekki uppi á borðum eins og oft vill gerast þrátt fyrir fögur fyrirheit um opna stjórnsýslu og annað í þeim dúr.

Mig langar helst í þessari umræðu að ræða um stofnun svokallaðs atvinnuvegaráðuneytis. Í þessari tillögu til þingsályktunar segir, með leyfi forseta:

„Þá býður sameining ráðuneyta sem fara með atvinnumál upp á aukna möguleika til sérhæfingar og aukið bolmagn til nýsköpunar og þróunarstarfs þvert á atvinnugreinar. Breytingarnar tryggja jafnframt skýrari stöðu auðlindamála í samræmi við breytingar á samfélaginu. […] tryggja öfluga þjónustu og stjórnsýslu til framtíðar í ráðuneytum sem hafa burði til þess að sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin …“

Er það svo, virðulegi forseti, að þetta verði niðurstaðan af því að stofna hér eitt atvinnuvegaráðuneyti? Af hverju skiptum við upp atvinnuvegaráðuneytinu á sínum tíma? Hver var ástæðan fyrir því? Við erum með tiltölulega einfalt atvinnulíf byggt á náttúruauðlindum landsins fyrst og fremst. Ástæðan fyrir því að við skiptum þessu upp á sínum tíma var sú að menn sáu fleiri tækifæri en í hinum hefðbundnu greinum eins og sjávarútvegi og landbúnaði. Menn sáu tækifæri í orkunni. Menn sáu að það væri betra að hafa málefni þessara grundvallaratvinnugreina í sérstökum ráðuneytum sem næðu að einbeita sér að verkefnum þeirra og hefðu góða sýn á hvern atvinnuþátt fyrir sig. Ég held að það sé miklu betri niðurstaða, sérstaklega í ljósi þess að við erum með tiltölulega einfalt atvinnulíf í samanburði við margar aðrar þjóðir.

Hér hafa ákveðnar greinar atvinnulífs eins og sjávarútvegur og orkuframleiðsla stórkostlega mikið vægi ef horft er til landsframleiðslu okkar. Því er öðruvísi farið í mörgum öðrum löndum þar sem fjölbreytnin er meiri en við eigum að venjast.

Hvernig á þróunin eftir að verða? Jú, við sjáum að hér hafa verið að þróast ákveðnar greinar, hér hefur nýsköpun verið að þróast og hér hefur t.d. ferðaþjónusta verið að þróast sem nokkuð öflug atvinnugrein. Þetta eru samt ekki atvinnugreinar sem munu skipta höfuðmáli. Þær munu aldrei duga til að draga vagninn í efnahagsumhverfi okkar þrátt fyrir góðan viðgang. Það er í sjálfu sér ánægjulegt að þær skuli blómstra, sérstaklega ferðaþjónustan við þessar aðstæður en hún dugar aldrei til að draga vagninn í samfélagi okkar.

Hvernig á þróunin eftir að verða í höfuðatvinnugreinunum?

Það er alveg ljóst að í sjávarútvegi eru enn gríðarmikil tækifæri til staðar ef ekki verður stefnt að einföldum ríkisrekstri á þeim vettvangi, eins og líklegt er að yrði ef frumvörp til fiskveiðistjórnarmála sem liggja fyrir þinginu færu í gegn því að þau yrðu til þess að færa þann rekstur meira til ríkisins, en ég gef mér að svo verði ekki. Þá á eftir að verða mikil þróun og aukin verðmætasköpun í þessari grein og aukin atvinnusköpun, sérstaklega í skyldum greinum.

Í iðnaðinum eru okkar stóru tækifæri, þar liggja okkar gríðarmiklu tækifæri. Og ætla að fara að dreifa athyglinni í einu stóru ráðuneyti frá þeim mikilvæga málaflokki er mér mjög til efs að sé til framgangs fyrir þau stóru mál sem eru þar.

Við erum hér í dag að deila um það hvort sjávarútvegurinn eigi að skila þjóðinni auðlindagjaldi upp á 5 milljarða, 10 milljarða, 15 milljarða eða 20 milljarða á ári á meðan stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir kemur fram í nýlegri samræmdri orkustefnu fyrir Ísland og í framkvæmdaskýrslu Landsvirkjunar til ársins 2025. Ef þær niðurstöður sem þar er komið inn á yrðu að veruleika fengi þjóðin í arð af þeim auðlindum 200 milljarða á ári eftir árið 2025, ekki bara einu sinni heldur á hverju einasta ári — 200 milljarða á ári. Tekjur ríkissjóðs í dag eru í kringum 500 milljarða og við erum að velta okkur upp úr einhverjum algerum smáatriðum með tilheyrandi upplausn í atvinnulífi okkar. Með það í huga hvernig stóru fyrirtækin standa, við getum nefnt olíuvinnslu í því samhengi líka, er ástæða til að hafa sérstakt ráðuneyti sem fjallar um og einbeitir sér að þessum málaflokki.

Ég hef einnig verulegar áhyggjur af því sem kemur fram í þessari þingsályktunartillögu, þ.e. þeirri skörun sem augljóslega yrði við auðlindaráðuneyti svokallað. Það er ljóst, eins og kemur fram í tillögunni, að mikil skörun verður á verkefnum. Þetta kallar á mikið samráð sem er tímafrekt og getur valdið togstreitu á milli ráðuneyta vegna mismunandi áherslna ráðherra í viðkomandi málaflokkum þar sem helstu tækifæri okkar liggja undir.

Við sjáum hvað hefur gerst núna í meðferð rammaáætlunar sem er ákveðin reynsla á því samráðsferli sem þarf að vera á milli annars vegar iðnaðarráðuneytis í því tilfelli og umhverfisráðuneytis. Hvert hefur það leitt okkur í rammaáætlun? Í algera vegvillu. Rammaáætlun er orðin að einhverju plaggi sem er gersamlega ónothæft vegna þess einmitt að það er ekki einn ráðherra sem ber ábyrgð á málinu heldur þarf að vinna það með þeim hætti sem raun ber vitni.

Það er löggjafinn sem setur rammann í umhverfismálum okkar og það er framkvæmdarvaldsins að starfa innan hans. Það er ekki vandamál fyrir okkur að bregðast við því, enda kom það fram í ræðu hæstv. umhverfisráðherra áðan að vandamálið lægi ekki í því að setja ramma um umhverfismál.

Andstöðu við þetta mál er ekki eingöngu að finna á þingi. Hún hefur komið skýrt fram í dag og er í rauninni með ólíkindum að hæstv. forsætisráðherra skuli leggja þetta mál fram í jafnmiklum ágreiningi og augljóslega er uppi um málið. Það er sennilega ekki meiri hluti á hinu hefðbundna stjórnarheimili fyrir þessu máli og er því verið að höfða til þess að stjórnarandstaðan að einhverjum hluta styðji málið til að ná því í gegn.

Víða í atvinnulífinu er mikil andstaða við þetta mál. Það kemur fram í þessari þingsályktunartillögu að á árinu 2011 hafi verið haldnir um 15 fundir með hagsmunaaðilum í íslensku atvinnulífi þar sem sjónarmið þeirra varðandi stofnun atvinnuvegaráðuneytis komu fram ásamt almennum viðhorfum þeirra til bættrar stjórnsýslu og í kjölfarið hafi verið unnin nánari greining. Við höfum engin gögn um hvað kom þar fram eða hver sjónarmið atvinnulífsins voru í þessum efnum en við höfum heyrt umræðu um að varað hafi verið við því að sameina atvinnuvegaráðuneytin í eitt ráðuneyti.

Við horfum á þetta samráð. Hér er talað um að haldnir hafi verið samráðsfundir. Við sjáum hvernig niðurstaðan er úr svokölluðu samráði sem hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði að hefði verið haft við hagsmunaaðila við gerð frumvarpa um sjávarútvegsmál. Það var í skötulíki og niðurstaðan er auðvitað sá bullandi ágreiningur sem er um það „stórslys“ sem er ekki ólíklegt að hæstv. utanríkisráðherra muni kalla þetta mál eftir einhvern tíma eins og hann talaði um „bílslysið“ sem var lagt fram í fyrra.

Er sameining lausnarorðið í öllum þessum málum? Það kemur fram í þessari tillögu um reynsluna af þeirri sameiningu sem hefur átt sér stað, eins og segir á bls. 2: „Eðli máls samkvæmt er ekki komin mikil reynsla á þessa nýju skipan …“

Hefði ekki verið nær fyrir okkur að skoða málin aðeins betur, undirbúa það betur, reyna að vinna málið í sátt og læra eitthvað af reynslunni? Hefði það ekki verið nær, virðulegi forseti, í stað þess að ana fram með enn eitt málið (Forseti hringir.) sem fyrir fram virðist vera dæmt til að verða mikið (Forseti hringir.) ágreiningsmál í þinginu? Tillagan er auk þess lögð fram á lokadögum þingsins þannig að það er ekkert svigrúm til að vinna hana faglega og klára (Forseti hringir.) málið.