140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:34]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, sameiningin á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í eitt ráðuneyti var mjög umdeild, hún var líka illa undirbúin þá og þau vinnubrögð voru alls ekki til fyrirmyndar, enda var það svo að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðust gegn þessum breytingum. Formaður flokksins, hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon, rökstuddi það mjög vel á þingi þá. Hv. þingmaður er svo ungur hér á Alþingi að hann var ekki kominn inn á þing þá. Sameiningu þessara ráðuneyta er ekki heldur að fullu lokið. Ég get líka upplýst að ýmsar kostnaðartölur sem lagðar voru til grundvallar í þeim áformum á sínum tíma stóðust engan veginn. Kostnaðurinn var miklu hærri en ráð var fyrir gert í þeim efnum.

Skipulag þessa ráðuneytis og sameiningin hefur tekið tíma. Ég veit að breytingar og tilfærsla á stofnunum sem fylgdu í kjölfarið hafa verið mjög umdeildar. Við fjölluðum um stöðu Landbúnaðarháskólans á Hólum í dag og komu fulltrúar skólans og bentu á að engan veginn hefði verið staðið við loforð um fjárhagslega styrkingu sem fylgdi við tilfærslu á þeim skóla milli ráðuneyta. Það er því margt óunnið frá sameiningunni sem gerð var. En ráðuneytin hafa haldið nöfnunum og heitunum sínum og stjórnsýslulegri stöðu sem nú á að afnema með þeim tillögum sem hér eru og (Forseti hringir.) tel það ég mjög mikinn veikleika og er ekki sammála (Forseti hringir.) því.