140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var sem sagt flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem ályktaði að hætta ætti við þær sameiningar sem hér er rætt um. Mig langar því að spyrja, ekki síst í ljósi þess að ýmsir þingmenn koma í ræðustól og rifja upp gamlar flokksályktanir, jafnvel áratuga gamlar, og tala eins og þær séu enn þá í gildi. Ég tala hér um ályktun flokksráðs frá 2010 og ég velti fyrir mér hvort flokksráðið hafi ályktað eitthvað annað. Hefur þessi ályktun verið dregin til baka af flokksráðinu eða gildir hún enn þá að mati þingmannsins?

Það ferli sem hér er í gangi gengur gegn þessari flokksráðssamþykkt Vinstri grænna og ég tek undir með hv. þingmanni um að það er alveg ótrúlegt að verða vitni að því að Evrópusambandið virðist ráða algjörlega för hér þegar verið er að krukka í þessa stjórnsýslu.