140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:44]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessi ályktun stendur enn. Henni hefur ekki verið breytt og að mínu viti stendur hún enn. Barátta Vinstri grænna, ekki hvað síst gegn aðild að Evrópusambandinu, speglast í þessari ályktun. Hitt er alveg rétt að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er í stjórnarsamstarfi með Samfylkingunni sem hefur aðild að Evrópusambandinu sem mál númer eitt, tvö og þrjú og forsætisráðherra hefur tjáð sig sérstaklega um mikilvægi þess að ganga sem fyrst í Evrópusambandið, taka upp evru o.s.frv. Þá er náttúrlega eðlilegt að spurt sé eins og hv. þingmaður gerir: Er þá ekki líka krafa frá Evrópusambandinu um að tekin verði upp hér stjórnsýsla að kröfu þess? Að minnsta kosti er það ósk frá sambandinu að stjórnsýsla þessara málaflokka sé samræmd og sett í eitt.