140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það séu mjög miklar líkur á því að þetta gerist. Mér sýnist að reynslan sé sú að yfirsýnin sé ekki jafngóð og hún var. Nú get ég talað af nokkurri reynslu því að ég var nú í ráðuneyti um skeið, félagsmálaráðuneytinu, þegar það var og hét. Það var að mínu viti mjög mikilvægt að þeir sem þar voru í pólitískum embættum höfðu mikla yfirsýn yfir hvert það verkefni sem um var fjallað í ráðuneytinu.

Ég leyfi mér því að efast um að í þessum stóru ráðuneytum eða þeim ráðuneytum sem nú er verið að búa til verði sú yfirsýn sem ég held að sé mjög nauðsynleg, ekki nema fara þá leið að vera með aðstoðarráðherra eða eitthvað slíkt sem ég sé ekki alveg tilganginn með ef þessi leið er farin.

Mín persónulega skoðun er sú að það sé betra að hafa ráðuneytin fleiri en færri. Ég er ekki að tala um að fara út í einhverja vitleysu heldur að hafa ráðuneytin þannig að þau geti sinnt þeim verkefnum sem þau eru með.

Það má líka velta fyrir sér hvort það sé heppilegt, eins og við höfum rætt hér í dag, að vera með efnahagsmálin og fjármálaráðuneytið undir sama hatti. Ég leyfi mér að efast um að svo sé. Ég tek undir orð hv. þm. Árna Páls Árnasonar, að það sé varasamt þegar við þurfum að vera á tánum í efnahagsmálum sérstaklega og byggja þau upp.

Ég leyfi mér líka að efast um að það sé einhver veruleg skynsemi í því að vera með umhverfis- og auðlindaráðuneyti eins óskýrt og það lítur út að mínu viti í þessum gögnum. Með því, svo að ég komist að meginmálinu, að fækka ráðuneytum og gera yfirsýnina óljósari er öðrum veitt vald en þeim sem eru kjörnir til að fá það vald.