140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:58]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þrátt fyrir að hv. þingmaður hafi verið að reyna að finna þarna einhvern „núans“ á milli okkar séum við bara algjörlega sammála. Það er ljóst að ráð sem þetta er hjómið eitt ef það hefur ekki yfir einhvers konar stofnun að ráða sem þar sem er stanslaus vinna í gangi, stanslaus þekkingarleit og þekkingarsöfnun. Ég sé fyrir mér að þetta verði svipað og í Danmörku en í því ráði eru þessir vitringar sem ég nefndi. Í ráðinu væru sem sagt ekki menn sem hefðu þetta að meginstarfa heldur sem aukastarf og hefðu undir sér stofnun með færustu sérfræðingum sem mundu vinna þá vinnu sem þyrfti og gera þær greiningar sem þyrfti, bæði greiningar sem þessi stofnun vildi fara út í sjálfstætt og greiningar á vinnu annarra.

Þannig að ég held að við hv. þingmaður séum algjörlega sammála um að hugmyndin gangi ekki upp öðruvísi. Það þýðir náttúrlega ekki að þessir vitringar reiði sig á vinnu ríkisstofnana sem hafa aðra hagsmuni og geta kannski haft pólitíska hagsmuni af einhverri niðurstöðu.