140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög áhugavert að við séum núna á síðustu dögum þingsins að ræða um þingsályktunartillögu um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Þrátt fyrir að þessi ríkisstjórn hafi níu líf og sé búin að ganga á flest þeirra er alveg ljóst að hún verður ekki lengur við völd en fram á næsta vor.

Ég held, virðulegi forseti, að það sé ágætt að fara aðeins yfir hvaða breytingar hafa verið gerðar á Stjórnarráðinu á undanförnum árum. Ég vek athygli á því að árið 2007, þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var við völd, voru gerðar nokkrar breytingar, þær helstar að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu var skipt upp þannig að tryggingamálin voru færð yfir í félagsmálaráðuneytið. Það var gert með þeim rökum að þannig fengist betri yfirsýn yfir þann málaflokk og það væri of umsvifamikið fyrir heilbrigðisráðuneytið að vera líka með tryggingamálin. Sömuleiðis voru sveitarstjórnarmálin færð úr félagsmálaráðuneytinu yfir í samgönguráðuneytið.

Þetta var hins vegar gert með lágmarkstilkostnaði þegar kom að nafnabreytingum, að sjálfsögðu. Ég ætti ekki að þurfa að taka það fram en ég geri það, virðulegi forseti, vegna þess að eitt af því fyrsta sem þessi ríkisstjórn gerði var að hræra í nöfnum á ráðuneytum. Þá varð dóms- og kirkjumálaráðuneytið dómsmála- og mannréttindaráðuneyti. Ég leitaði hjá Google vini mínum að því hvar annars staðar væru mannréttindaráðuneyti og mig minnir að ég hafi fundið annaðhvort Lesótó eða Erítreu en önnur ríki voru ekki með mannréttindaráðuneyti. Ég held að flest ríki líti svo á að öll ráðuneyti séu mannréttindaráðuneyti. Menntamálaráðuneytið varð mennta- og menningarmálaráðuneyti og samgönguráðuneytið varð samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og viðskiptaráðuneytið varð efnahags- og viðskiptaráðuneyti.

Ég spurðist fyrir um kostnaðinn af þessu, virðulegi forseti, og hann hljóp á milljónum, bara við að skipta um nöfnin á ráðuneytum. Það gerðist mest lítið en þegar kemur að þessum hlutum virðast endalausir peningar vera til. Það sem gerðist í kjölfarið var að heilbrigðisráðuneytið, sem nýbúið var að skipta upp og taka frá tryggingamálin, var sameinað aftur og sett með félagsmálum í velferðarráðuneyti. Ég held að það hafi verið gert með þeim rökum að sameina ætti smærri ráðuneyti. Fyrir sameininguna voru þetta að vísu tvö stærstu ráðuneytin og til varð auðvitað langstærsta ráðuneytið í kjölfarið. Síðan var dómsmála- og títtnefnt mannréttindaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sameinað í innanríkisráðuneyti. Einnig átti í kjölfarið að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og kannski einhverja fleiri flokka í eitt atvinnuvegaráðuneyti.

Virðulegi forseti. Í þeirri stuttu greinargerð sem fylgir með þingsályktunartillögunni leyfa menn sér að láta eins og einhver sparnaður hafi náðst þegar þeir voru að sameina þessi ráðuneyti en það stenst ekki. Við erum að tala um framúrkeyrslu upp á fleiri tugi prósenta, bara á húsnæðiskostnaði vegna sameiningar þessara ráðuneyta og fór sá kostnaður upp í 243 milljónir og það á þeim tímum, virðulegi forseti, þegar menn berjast um hverja einustu krónu. Sjálfsagt er það í tengslum við einhver hrossakaup innan ríkisstjórnarinnar að verið er að hræra í Stjórnarráðinu út í það óendanlega og er mjög erfitt að fá upplýsingar um kostnað. Reyndar var það þannig að eftir að sérfræðinefndir fjölluðu um þetta — og væri nú fróðlegt að sjá hvort farið hafi verið eftir þeim ráðleggingum — þurfti þingið að láta Ríkisendurskoðun kanna hvaða kostnaður lá þar að baki vegna þess að forsætisráðherra neitaði að upplýsa um það þrátt fyrir ítrekaðar spurningar frá fleirum en einum þingmanni.

Virðulegi forseti. Þegar setja átti atvinnuvegaráðuneytið á laggirnar var aldrei nokkurn tíma talað um það í þeirri umræðu, sem ég tók þátt í, að bankarnir ættu að fara þangað. Þvert á móti sagði núverandi — ja, hann er nú með mörg ráðuneyti, ætli hann heiti ekki efnahags- og viðskiptaráðherra, ég ætla ekki að telja upp öll hin — hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon, og hefur oft talað um það, að jafnvel væri skynsamlegt að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann af augljósum ástæðum, eins og margir sérfræðingar hafa bent á. Núna síðustu daga fyrir þinglok erum við hér með þvílíka bunka af þingskjölum að heilu skógarnir hljóta að hafa farið í það, annaðhvort af Norðurlöndunum eða annars staðar, sem var hent inn á síðustu dögunum. Og þá kemur þingsályktunartillaga um að hræra í Stjórnarráðinu — og hvað? Einhver hugmynd sem enginn hefur áður heyrt um, að bankarnir eigi að fara til hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar rétt fyrir kosningar. Virðulegi forseti, ég spyr bara eins og er oft gert: Hvað er það? Hvaða hugmynd er það að bankarnir fari í atvinnuvegaráðuneytið? Og af hverju liggur allt í einu á því að gera það rétt fyrir kosningar? Hvers vegna vill hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon fá bankana til sín rétt fyrir kosningar?

Auðvitað hefur hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon snúist í marga hringi í flestum málflutningi sínum, og hér kemur hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sem kann nú að segja einhverjar sögur af því. En hvaðan kom þessi hugmynd að bankarnir ættu að fara í atvinnuvegaráðuneytið? Eru ekki nokkrar vikur síðan hæstv. ráðherra sagði að það kynni að vera skynsamlegt að sameina FME og Seðlabankann? Nú eiga þær stofnanir að heyra hvor undir sitt ráðuneytið ef þetta mál gengur fram.

Til rökstuðnings þessu — sem betur fer fara nú ekki margir skógar í greinargerðina, virðulegi forseti, því að þetta stóra mál er svo þunnt að það er eins og sum dagblöðin voru, svipað og Alþýðublaðið var á sínum tíma þegar það var alveg í andarslitrunum, einar tvær blaðsíður. Í greinargerðinni er farið yfir í verkaskiptingu ráðuneyta á sviði efnahagsmála á Norðurlöndum. Það er rökstuðningurinn, virðulegi forseti. Sagt er frá því að til dæmis í Noregi og annars staðar á Norðurlöndum sé bara eitt ráðuneyti, eitthvert risaráðuneyti, sem fari með almenna hagstjórn, skatta og tolla, fjárlög og fjármálamarkaði. En vantar ekki eitthvað í þetta? Ég veit að til dæmis í Noregi eru fjórir aðstoðarráðherrar þannig að þar fara sem sagt fimm ráðherrar með málaflokkinn. Það vantar í þetta örþunna blað hér, þingsályktunartillöguna. Við sem höfum fylgst með störfum þessarar ríkisstjórnar hljótum að spyrja okkur hvað búi að baki því að við þekkjum hrossakaupin á stjórnarheimilinu, sem eru ekki fá. Það er kannski einu viðskiptin sem hafa virkilega blómstrað frá því að þessi ríkisstjórn tók við, hrossakaupin í tengslum við ráðherrastólana. Það eru mjög blómleg viðskipti.

Maður hlýtur að spyrja sig: Hvað er á bak við þau kaup að allt í einu detti bankarnir inn til hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar? Maður mundi ætla að sá ágæti hæstv. ráðherra hefði nóg á sinni könnu. Hvaðan kom þessi hugmynd og hvað varð um hugmynd sjálfs hæstv. Steingríms J. Sigfússonar um nauðsyn þess og skynsemina í því að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið? Það er ekki aðeins að hann sé að hætta við að sameina þær, hann vill setja þessar stofnanir, sem er svo mikilvægt að vinni saman og skynsamlegt er að sameina, eins og flestir eru sammála um, og setja hvora undir sitt ráðuneytið.

Virðulegi forseti. Ég held að ef við ætlum að fá einhvern botn í þetta mál þýði lítið að lesa þetta þunna plagg hérna. Það þýðir lítið að hlusta á hæstv. ráðherra lesa upp ræður sem skrifaðar eru í ráðuneytinu. Ég held að það væri æskilegt að hæstv. ráðherrar segðu frá því hvaða hrossakaup eru hér á ferðinni. Hvað er í raun á bak við þetta? Ég meina, það trúir enginn þessu. Hæstv. ráðherrar eru búnir að setja tugmilljónir króna í einhverja sérfræðiskýrslu þar sem ekkert kemur fram um þessa breytingu. Fengnir hafa verið erlendir ráðgjafar til að leiðbeina okkur um hvað eigi að gera og hver um annan þveran hafa menn talað um mikilvægi þess að fara eftir þeim ráðleggingum sérfræðinganna sem kostuðu alla þessa fjármuni. Hvað sögðu þessir sérfræðingar? Jú, sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann.

Nú korteri fyrir kosningar, eða segjum klukkutíma fyrir kosningar, ætlum við hvorki meira né minna en að skella (Forseti hringir.) bönkum og Fjármálaeftirliti til hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar.