140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr og hittir náttúrlega naglann á höfuðið, þetta er augljóst: Ef vantar starfsfólk til að greina hluti í efnahagsráðuneyti og ástæðan fyrir því er væntanlega sú að menn eru að uppgötva það núna, hafa ekki séð það fyrir, sem er ótrúlegt og segir okkur bara það að þeir hafa ekkert undirbúið þetta á sínum tíma, og það vantar í núverandi efnahags- og viðskiptaráðuneyti þá er það annaðhvort þannig nú að hópur fólks situr í fjármálaráðuneytinu — ég veit ekki til þess að það hafi verið ráðið þangað nýlega — og hefur setið mjög lengi og beðið eftir því að fá verkefni, væntanlega orðinn frekar þreyttur á því að hafa engin verkefni, eða að ráða þarf fólk inn í fjármálaráðuneytið. Það er bara annað hvort. Kannski hæstv. ráðherra upplýsi okkur um það ef hann hefur fundið starfsmenn sem eru sérhæfðir á þessu sviði og búnir að bíða þar í fleiri ár eftir þessum verkefnum. Ég efa það, virðulegi forseti. Ég held að embættismenn í fjármálaráðuneytinu hafi haft nóg að gera og þessi fjölgun þurfi að koma til hvort heldur sem er.

Síðan kom hv. þingmaður inn á það sem fyrrverandi hæstv. ráðherra Ragna Árnadóttir fór yfir í góðu útvarpsviðtali þegar var verið að fara yfir stjórnarráðsbreytingarnar á sínum tíma og benti á hið augljósa að þegar ráðuneytin eru orðin mjög stór — ég vek athygli á því að annars staðar á Norðurlöndum eru menn með öðruvísi fyrirkomulag, þar eru ráðherrar og síðan pólitískir aðstoðarráðherrar sem oftar en ekki eru þingmenn þannig að það er bara annað heiti á ráðherrum — þá gerist það, virðulegi forseti, að völd embættismanna aukast. Þeir eru með þekkinguna en það tekur ákveðinn tíma fyrir hvern og einn, alveg sama hver er, að koma sér inn í mál í viðkomandi ráðuneyti og eitt af því sem gerist af mörgum þeim kostum og göllum (Forseti hringir.) er að embættismenn stjórna ferðinni en ekki þjóðkjörnir fulltrúar.