140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vitnaði í viðtal við Rögnu Árnadóttur, fyrrverandi hæstv. ráðherra, sem var á RÚV eftir að hún lét af ráðherraembætti. Ég hlustaði á þetta viðtal, þetta var gríðarlega gott viðtal þar sem hún fór yfir þessi mál, Stjórnarráðið, ráðuneytin og hver þróunin yrði þegar ráðuneytin stækkuðu mjög mikið og þá staðreynd að með svo gríðarlega stórum ráðuneytum mundum við einfaldlega auka völd embættismanna og minnka yfirsýn ráðherranna yfir málaflokkana. Reyndar er hinu gagnstæða haldið fram mjög víða í þeirri þingsályktunartillögu sem hér er, að þetta eigi einhvern veginn að auka yfirsýn ráðherranna yfir málaflokkana og efla möguleika ráðuneytanna og ráðherranna til að hafa yfirsýn, sem er einfaldlega rangt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að það er greinilegt að stefna ríkisstjórnarinnar er svo sannarlega sú að auka og efla völd embættismannakerfisins á kostnað kjörinna fulltrúa, sem er gríðarlega alvarlegt, hvað hann telji að búi að baki þeirri einörðu stefnu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. „allsherjarráðherra“, Steingríms J. Sigfússonar, að ganga ítrekað fram þvert gegn því sem hinn ágæti ráðherra Ragna Árnadóttir sagði á sínum tíma með því að auka völd embættismannanna, embættismannakerfisins og minnka yfirsýn ráðherranna og minnka í rauninni þá möguleika sem þeir hafa (Forseti hringir.) til að hafa yfirsýn yfir verkefnin. Hvað telur hv. þingmaður að búi að baki þessum tillögum?