140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr spurninga sem þarf eðli máls samkvæmt að svara og eru kjarni málsins, þ.e. af hverju menn skrifa hér hluti sem augljóslega standast ekki. Það bara stenst ekki, engan veginn, að það auki yfirsýn ráðherra eða pólitískt kjörinna fulltrúa að þjappa ráðuneytunum saman með þessum hætti. Fyrrverandi ráðherra, Ragna Árnadóttir, var ekki bara ráðherra heldur fyrrverandi ráðuneytisstjóri. Hún þekkti málin frá öllum hliðum og hafði engra hagsmuna að gæta annarra en þeirra að upplýsa þjóðina um hvernig hlutirnir væru.

Virðulegi forseti. Það eru engar rökréttar skýringar á bak við þessa breytingu. Það er engin hugsun í þessu, getum við sagt, svona hefðbundin rökhugsun, sem sýnir sig í því að allt í einu ætla menn að setja Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið hvort í sitt ráðuneytið. Þetta eru hrossakaup fyrst og fremst og hefur kannski mest með karaktereinkenni þeirra hæstv. ráðherra sem eru í forustu í ríkisstjórninni að gera, þ.e. hæstv. — ja, allsherjarráðherra er ekkert verra orð en hvað annað meðan ekki er komið neitt nafn á það ráðuneyti og hæstv. forsætisráðherra. Þetta er mjög stjórnsamt fólk sem vill hafa allt á sinni könnu.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að þótt hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon sé fyrrverandi fjármálaráðherra svarar hann eins og hann sé núverandi fjármálaráðherra. Núna komu einhverjar athugasemdir varðandi lausatök í ríkisfjármálum og hver svaraði fyrir það, virðulegi forseti? Var það hæstv. fjármálaráðherra Oddný G. Harðardóttir? Nei, það var enginn annar en hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon. Það er eins og menn hafi ákveðið að hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon þyrfti að fá bankana og þá er það bara gert og síðan semja menn eitthvað örlítið í kringum það.