140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Mig langar í upphafi, vegna orðaskipta hv. þingmanna hér á undan, þar sem menn voru að velta fyrir sér vinnunni í kringum verkefnið, að geta þess að það kom mjög skýrt fram hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni í dag að málið væri í raun og veru algjörlega óunnið, órökstutt og vanreifað, það var hans einkunnagjöf á því.

Ég velti því fyrir mér af hverju við séum hér seint um kvöld að ræða þessa þingsályktunartillögu um breytingar á Stjórnarráðinu þegar eðlilegra væri að ræða brýnni málefni en það. Það hefur líka komið fram í umræðum hér í dag að innan stjórnarflokkanna er ekki einu sinni meiri hluti fyrir því að koma málinu í gegn. Maður veltir því fyrir sér hverja sé búið að semja við á bak við tjöldin til að koma málinu í gegn. Það hefur nefnilega ekki farið fram hjá neinum undanfarnar vikur að svo virðist sem einn stjórnarandstöðuflokkurinn sé orðinn óbeinn aðili að ríkisstjórnarsamstarfinu þó að það sé ekki gefið upp með formlegum hætti.

Ef menn hefðu ætlað að ræða breytingar á Stjórnarráðinu hefði átt að gera það miklu fyrr. Það eru óþolandi vinnubrögð að ætla að breyta þessu rétt fyrir kosningar þegar einungis er um hálft ár eftir af því kjörtímabili sem það átti að taka gildi á. Mig langar að rifja aðeins upp umræðuna sem átti sér stað þegar farið var í breytingar á ráðuneytunum, fyrri breytingarnar, þegar ráðuneyti voru sameinuð svo að til urðu innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið. Þá varð hér umræða sem ég tók þátt í um ýmsa hluti sem ég hefði þó viljað ræða betur. Hvers vegna er til að mynda ekki gert ráð fyrir því, sem ég held að ekki sé pólitískur ágreiningur um, það kom alla vega ekki fram í þeirri umræðu svo að ég tæki eftir — en auðvitað er þetta mál ekki unnið í neinu samstarfi, þetta er bara keyrt í gegn af tveimur hæstv. ráðherrum sem eru forustumenn ríkisstjórnarinnar í baktjaldamakki og samningum sem við vitum ekkert um.

Talað var um að við þyrftum að breyta ráðningarferlinu þegar fólk væri ráðið í vinnu í ráðuneytin og mér þóttu það skynsamlegar hugmyndir. Talað var um að í stað þess að ráða fólk í ráðuneytin yrði fólk ráðið í Stjórnarráðið sem slíkt. Hvort sem um væri að ræða lögfræðinga eða hagfræðinga, eða hvaða starfsheiti sem er, þá væri fólk bara ráðið inn í Stjórnarráðið sem slíkt. Það gæti orðið einfaldari og vandaðri ferill og þá gætu menn verið með ákveðna mannauðsstjórnun í kringum það. Þá væri líka hægt að færa fólk til innan Stjórnarráðsins án þess að færa það á milli ráðuneyta því að girðingar á milli ráðuneytanna eru oft mjög háar. Þegar starfsmaður ert ráðinn í eitt ráðuneyti er ekki hægt að færa hann yfir í annað ráðuneyti nema með hans eigin samþykki. Ég hefði talið mun skynsamlegra að ráða fólk til starfa inn í Stjórnarráðið, og það hefði þurft að vera búið að breyta þessu. Ákveðin verkefni geta síðan koma upp og ákveðnar aðstæður skapast sem valda miklu álagi á einstaka ráðuneyti og þá væri hugsanlega hægt að færa til starfsfólk og bregðast við því álagi sem þar er með því að fólk væri ráðið í Stjórnarráðið.

Ég hefði líka talið rétt að við ræddum frekar þann mikla kostnað sem orðið hefur við breytingar á ráðuneytunum og á ég þá við húsnæðiskostnaðinn sem er gífurlega mikill. Við erum svo að fara í breytingar núna í lok kjörtímabils og hugsanlega verður öllu breytt aftur ef næstu ríkisstjórn líst ekki á þær breytingar og þá erum við bara að henda peningum. Ég hefði frekar viljað fá að ræða það hér hvort skynsamlegt væri að þróa hlutina í þá átt að við hefðum svokallaða aðstoðarráðherra sem gætu jafnvel starfað tímabundið á kjörtímabilinu eða hvernig sem það væri. Ég hefði kosið að við tækjum efnislega umræðu um málið með það að markmiði að gera Stjórnarráðið — sem ég held að allir séu sammála um að gera — skilvirkara og sterkara í staðinn fyrir að taka ákvarðanir eins og virðist eiga að gera hér, bara sisona án þess að stefnumörkun til lengri tíma liggi fyrir.