140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:12]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að auðvitað snýst þetta alls ekki um þær persónur sem eru ráðherrar hverju sinni, síður en svo. Enda eiga breytingar á Stjórnarráðinu að vera hafnar yfir persónur. Stjórnarráðið á ekki að vera að taka breytingum daglega, mánaðarlega eða ársfjórðungslega eins og þetta virðist vera hjá núverandi ríkisstjórn. Það virðist vera ársfjórðungslegur viðburður að breyta þurfi og stokka upp í Stjórnarráðinu og flytja til og annað því um líkt með tilheyrandi kostnaði.

Ég veit að hv. þingmaður hefur starfað við sjávarútveg og langar því að spyrja hann um það sem snýr að nýtingu sjávarauðlindarinnar. Töluvert hefur verið rætt um þá staðreynd að þessi þingsályktunartillaga er til komin vegna þess að löggjafinn vill hafa áhrif á það hvernig skipan Stjórnarráðsins er háttað, hvaða stofnanir eru innan viðkomandi ráðuneyta, hvað ráðuneytin heita og annað slíkt. Það sýnir saga þessa máls á þessu kjörtímabili ítrekað.

Hvað finnst hv. þingmanni um það að við skulum vera að ræða þessa þingsályktunartillögu og hæstv. ráðherrar og hv. stjórnarliðar hafa ekki getað svarað því hér í umræðunum hvort til standi að flytja Hafrannsóknastofnun yfir til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins? Því hefur verið svarað með loðnum hætti eða með skætingi. Hvað finnst hv. þingmanni um það, í ljósi þess að löggjafinn hefur ítrekað sýnt að hann vill hafa áhrif á þessi mál, að við skulum horfa upp á það enn einu sinni að málum sé þannig háttað að á engan hátt liggi fyrir (Forseti hringir.) hvað ríkisstjórnin ætlar sér með þessu máli ef það verður samþykkt?