140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurning hv. þingmanns er bara staðfesting á vinnubrögðunum í málinu. Það er ótrúlegt að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og hæstv. forsætisráðherra geti til að mynda ekki svarað þeirri einföldu spurningu, af því að við erum að stofna atvinnuvegaráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti, hvar Hafrannsóknastofnun yrði til að mynda vistuð. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sagði: Það verður svona með aðkomu beggja ráðuneytanna en fyrst um sinn verður það alla vega undir sjávarútvegsráðuneytinu.

Þetta eru algjörlega óboðleg vinnubrögð og segir okkur hvernig málum er háttað. Auðvitað á að liggja fyrir hvernig menn ætla að skipa málum í framtíðinni, hvar stofnanirnar eigi að vera og þar fram eftir götunum, það gefur augaleið. Enda er þessi þingsályktunartillaga og greinargerðin með henni nánast ekki neitt. Það er vegna þess að það ágæta fólk sem hefur verið að vinna og smíða tillöguna hefur ekkert haft frekari upplýsingar, það er ekki við það að sakast.

Hv. þingmaður sem nú situr í stóli forseta setti fram ákveðna tilgátu í svari sínu í dag sem ég hugsa að sé nokkuð rétt. Hún fólst í því að kannski ætti að koma málinu í gegnum þingið í þoku og skugga þannig að menn færu ekki að takast á um afmarkaða þætti eins og þá hvar einstaka stofnanir ættu að vera vistaðar því að þá væri ekkert víst að þingmeirihluti væri fyrir málinu. Það eru því einhver verkefni og átök sem eiga eftir að fara fram í framtíðinni. Eftir að búið er að fá breytinguna í gegn, koma því í gegnum þingið, geta forustumenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. ráðherrar, farið að víla og díla með það. Þetta gengur nefnilega allt út á það að víla og díla með ákveðin verkefni og ákveðnar stofnanir, það er sennilega skýringin.