140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Herra forseti. Það er að verða reglulegur viðburður á Alþingi á þessu kjörtímabili að við þurfum að ræða breytingar á Stjórnarráðinu vegna þess að það virðist vera eina málið sem hæstv. forsætisráðherra hefur áhuga á og telur vera lausn á öllum vanda þjóðarinnar. Við gætum verið að ræða fjöldamörg mál sem mundu skipta heimili og fyrirtæki meira máli en breytingar á Stjórnarráðinu. Ég veit ekki í hvaða skipti það er núna þegar kemur fram tillaga frá ríkisstjórninni um breytingar á Stjórnarráðinu. Í sjöunda sinn, hv. þm. Birgir Ármannsson gefur mér merki um að þetta sé í sjöunda sinn á kjörtímabilinu sem rætt er um breytingar á Stjórnarráðinu. Það virðist vera lausnin á öllum vanda að ráðast í að hringla með Stjórnarráðið þegar á móti blæs og hæstv. forsætisráðherra virðist hafa sérlegan áhuga á því.

Það hefur verið mjög sérstakt að fylgjast með þessu og ég ætla að koma inn á það á eftir að það liggur alveg ljóst fyrir að þingið hefur ítrekað í allri umfjöllun um þessi mál sýnt vilja til að hafa áhrif á skipan Stjórnarráðsins, hvaða verkefni eigi að vera undir ráðuneytunum, hvaða ráðuneyti eigi að vera starfrækt, hver heiti þeirra eigi að vera o.s.frv.

Fyrr á kjörtímabilinu kom hæstv. forsætisráðherra til að mynda með frumvarp um að stofna nýtt atvinnuvegaráðuneyti og leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið þrátt fyrir ítrekaða og mikla andstöðu allra, vil ég segja, hagsmunaaðila innan sjávarútvegsins og innan landbúnaðarins. Menn bentu á að með þessu væri verið að veikja þessar atvinnugreinar, veikja sjávarútveg og landbúnað í miðjum aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hæstv. forsætisráðherra kom engu að síður fram með frumvarp um að ráðast í þær breytingar og þrátt fyrir að samstarfsflokkurinn Vinstri grænir hefði ályktað gegn þeim, eins og hv. þm. Jón Bjarnason benti á í máli sínu í dag. Alþingi tók þá til sinna ráða og tók þessa breytingu út. Þar með sýndi Alþingi vilja til að hafa áhrif á skipan Stjórnarráðsins, hafa áhrif á það hvernig verkefnum er skipað.

Hæstv. forsætisráðherra lét ekki þar við sitja heldur lagði fram frumvarp um Stjórnarráðið en í því var gert ráð fyrir breytingu þess efnis að forsætisráðherra gæti bara sjálfur hringlað í þessu þegar honum dytti í hug og ekkert þyrfti að bera það undir Alþingi eða nokkurn mann þegar stokkað væri upp í ráðuneytum og verkefni flutt á milli. Í því frumvarpi var reyndar gert ráð fyrir að allir ráðherrar væru eins og starfsmenn hæstv. forsætisráðherra.

Alþingi greip þá líka til sinna ráða og sagði: Nei, við viljum hafa áhrif á það hvernig Stjórnarráðið er skipað. Þess vegna var gerð breytingartillaga, að hluta til, eftir miklar umræður á þingi, þar sem gert var ráð fyrir því að hæstv. forsætisráðherra yrði að leggja fram þingsályktunartillögu áður en hringlað yrði með Stjórnarráðið, því af fenginni reynslu af núverandi ríkisstjórn var orðið daglegt brauð að verið væri að hringla með það og flytja verkefni á milli, sameina ráðuneyti og þetta virtist vera lausn hæstv. forsætisráðherra á öllum málum.

Þess vegna ræðum við hér þessa tillögu til þingsályktunar, vegna þess að hæstv. forsætisráðherra ætlar enn á ný að leggja fram sömu breytingar og hún hefur reynt að koma í gegn allt kjörtímabilið. Alþingi hefur sýnt fram á að það hafi ekki áhuga á þessum breytingum eða að verið sé að rugla frekar í Stjórnarráðinu. Það kom reyndar fram í dag hjá hv. þingmönnum stjórnarliðsins, Jóni Bjarnasyni og Árna Páli Árnasyni, að þessi þingsályktunartillaga væri hroðvirknislega unnin og ein lélegasta tillaga sem komið hefði frá hæstv. forsætisráðherra.

Hver er þá tilgangurinn með því að leggja þessa þingsályktunartillögu fram? Hver er tilgangurinn með því að ráðast í þessar breytingar nú? Er eitthvað sem kallar á þær? Það vita auðvitað allir að hæstv. forsætisráðherra og hv. þingflokkur Samfylkingarinnar hefur haft mikinn áhuga á því í langan tíma að veikja grunnatvinnugreinarnar. Við sjáum það varðandi sjávarútveginn, en ítrekað hefur komið fram vilji hjá Samfylkingunni til að veikja þá grunnatvinnugrein og landbúnaðinn einnig. En hvað vakir fyrir þeim með því að leggja þessa þingsályktunartillögu fram núna?

Hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á það í umræðum í dag að þetta kynni að vera hluti af Evrópusambandsumsókninni. Það kann að vera langsótt, eða hvað? Af hverju er Evrópuþingið að senda frá sér ályktun í marsmánuði um að það fagni breytingum á ríkisstjórn og fagni því að verið sé að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og stofna atvinnuvegaráðuneyti? Er þetta ekki einmitt það sem hagsmunaaðilar í sjávarútvegi og landbúnaði óttuðust, að verið sé að veikja þessar grunnatvinnugreinar?

Síðan kemur hæstv. efnahags-, viðskipta-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og formaður Vinstri grænna og segir að þetta sé kjaftæði og barnalegt rugl í umræðum í dag, þegar hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson rifjar upp að Evrópuþingið hafi ályktað með þessum hætti. Hv. þm. Jón Bjarnason benti á það fyrr um daginn að þetta væri nátengt. Og af hverju gefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð enn á ný eftir gagnvart Samfylkingunni í þessu máli? Það vantar ekki að baklandið styðji við flokkinn um að standa í lappirnar með þessum grunnatvinnugreinum. Það vantar ekki að stofnanir flokksins hafi ályktað með sama hætti. Hv. þm. Jón Bjarnason rifjaði það vel upp í ræðu fyrr í dag að í stefnu Vinstri grænna, í síðustu ályktun sem samþykkt var, væri gert ráð fyrir því að ekki ætti að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og stofna atvinnuvegaráðuneyti meðan Evrópusambandsumsóknin væri í gangi.

Það lítur allt út fyrir að þetta sé enn ein eftirgjöfin hjá formanni Vinstri grænna gagnvart Samfylkingunni. Og er nema von að margir spyrji sig að því á hvaða vegferð menn séu í þessu máli og fleirum? Og á hvaða vegferð er hæstv. forsætisráðherra, hver er grunnurinn á bak við þetta mál? Af hverju er málið í þinginu núna? Ef maður skoðar rökstuðninginn á bak við þingsályktunartillöguna hefur til að mynda ekki verið hægt að svara því í dag hvar Hafrannsóknastofnun eigi að vera, hvort hún eigi að heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti eða atvinnuvegaráðuneyti. Hæstv. ráðherrar hafa ekki getað svarað því og ekki hv. þingmenn stjórnarliðsins.

Þrátt fyrir að Alþingi hafi ítrekað sýnt vilja sinn á þessu kjörtímabili í hvert einasta skipti sem mál sem varða breytingar á Stjórnarráðinu hafa komið hingað inn, og gert breytingar í þá veru og gefið þau skilaboð að það vilji hafa áhrif á skipan Stjórnarráðsins, kemur hér fram þingsályktunartillaga sem á engan hátt skýrir hvernig unnið verður úr málum ef hún verður samþykkt. Og það eru auðvitað þessi vinnubrögð sem geta ekki gengið, að hæstv. forsætisráðherra leyfist ítrekað að ganga svona fram með gælumál sín sem eru á engan hátt aðkallandi í dag og sem virðist vera megn óánægja með innan stjórnarliðsins. Það virðist ekki vera stuðningur við málið miðað við ræður þeirra sem hafa talað í dag, að minnsta kosti er ekki stuðningur fyrir því á stjórnarheimilinu og miðað við ræður þeirra þingmanna stjórnarandstöðunnar sem hafa talað er ekki stuðningur fyrir málinu. Hvað vakir fyrir ríkisstjórninni að keyra málið svona áfram? Maður spyr sig auðvitað að því og það væri fróðlegt ef fleiri stjórnarliðar tækju þátt í umræðunni og væru jafnvel viðstaddir hana, eða forsætisráðherra, og gætu kannski upplýst okkur um hvað býr raunverulega að baki. Þetta mál (Forseti hringir.) er illa unnið, ófullbúið og á ekkert erindi inn á þing eins og það er lagt fram í dag.