140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:37]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég minnist þess ekki að þetta hafi verið nefnt fyrr í umræðunni í tengslum við þessi mál. Hins vegar er óhætt að segja að fátt kemur manni orðið á óvart í þessu efni því að svo virðist vera sem hæstv. allsherjarráðherra og formaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, eigi mjög auðvelt með að skipta hratt og örugglega um skoðun í grundvallarmálum á mjög skömmum tíma. Manni kemur því auðvitað ekkert á óvart í þessu efni og kannski var það þess vegna sem fauk svona í hæstv. ráðherra í dag þegar fjallað var um þessi mál, ég er farinn að efast um að hann viti sjálfur hver hans eigin stefna er, hver flokksstefna hans er (Forseti hringir.) eða á hvaða vegferð þetta mál er yfir höfuð.