140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Telur hv. þingmaður, sem er bóndi, ekki nauðsynlegt fyrir bændur að fá að vita hvort einhverjum kunni að detta í hug að tún bænda muni heyra undir auðlindaráðuneytið og hversu mikið menn muni víkka það út? Við höfum séð hvernig skipulagsmál hafa farið með marga bændur þar sem eignarrétturinn hefur í rauninni hopað fyrir skipulagslögum. Sér hv. þingmaður fyrir sér að þingsályktunartillagan geti ógnað sjálfstæði bænda þar sem allt er eiginlega opið í þeim efnum, til dæmis varðandi það hvað heyra muni undir auðlindaráðuneytið og hvernig mál verði flokkuð þar?