140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt. Það virðist vera, eins og hv. þingmaður rakti, eitthvert grundvallaratriði hjá hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórninni að hringla með Stjórnarráðið fram og til baka. Um það bil tvisvar sinnum á ári kemur hæstv. forsætisráðherra með frumvörp til að gera breytingar á Stjórnarráðinu. Við eigum því í ljósi þess, ef kosningar fara hér fram á eðlilegum tíma, eftir að sjá þrjú mál í viðbót frá hæstv. forsætisráðherra um breytingar á Stjórnarráðinu ef við framreiknum þetta. Það er engin ástæða til að ætla annað en að forsætisráðherra og ríkisstjórnin verði jafnkraftmikil í breytingum á Stjórnarráðinu og verið hefur. Þá eigum við eftir að horfa upp á frumvörp frá hæstv. forsætisráðherra til breytinga á Stjórnarráðinu þrisvar sinnum í viðbót. Það sér það (Forseti hringir.) hver heilbrigður maður að það er náttúrlega bara rugl.