140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir mjög margt af því sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason segir. Ég ætla að bæta því við af því tilefni að þessi ofuráhersla á breytingar á Stjórnarráðinu, skipulagsbreytingar á æðstu stjórn ríkisins, er sérkennileg í ljósi þess að undanfarin ár hefur þessi ríkisstjórn haft verkefni sem hefðu verið hverri ríkisstjórn nægt viðfangsefni, hefði ég haldið. Þar má nefna uppbyggingu í atvinnulífinu, endurreisn fjárhags heimilanna, skuldauppgjör og fleiri þess háttar risavaxin mál sem hefðu við allar eðlilegar aðstæður átt að eiga hug og tíma ráðherra óskiptan. Ég hefði haldið að það væri nærtækara fyrir hæstv. ríkisstjórn að beina kröftum sínum í þá áttina frekar en að sitja við það dag og nótt, mánuð eftir mánuð að endurskrifa skipuritið í Stjórnarráðinu.