140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:19]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að viðurkenna að ég get með engu móti lesið í hug hæstv. forsætisráðherra og gert mér grein fyrir því hvað vakir fyrir henni með þessu máli. Ég verð eiginlega að svara hv. þingmanni með þeim hætti hvað þetta varðar.

Ég vil hins vegar segja, vegna stærðar ráðuneyta og hversu skynsamlegt það er að stækka þau svo mikið, að ég hefði haldið að áður en farið væri í frekari breytingar ætti að minnsta kosti að taka út hvernig til hefur tekist fram til þessa, hvernig til hefur tekist með velferðarráðuneytið svo að dæmi sé tekið. Við ræddum það töluvert hér þegar það ráðuneyti varð til, eitt af þeim sex málum sem þingmaðurinn nefndi, að varhugavert væri að hafa svo stóran útgjaldalið ríkisins á einni hendi. Ég held að sú röksemd standi alveg og að mínu viti væri hyggilegra að fara yfir það hvernig þær breytingar sem menn hafa gert fram til þessa hafi tekist áður en frekari breytingar verða gerðar.

Það sem stendur kannski upp úr er að það er allt of mikil lausung á Stjórnarráðinu og hefur verið á þessu kjörtímabili. Það er óeðlilegt að ein og sama stofnun fari núna undir þriðja ráðuneytið á kjörtímabilinu. Við erum ekki að tala um neina smástofnun, við erum að tala um Seðlabanka Íslands, það er ekkert annað. Það er kannski aukaatriði hvaða ráðherra fer með Seðlabanka Íslands, hann er kannski smástofnun sem þarf ekkert að taka tillit til.

Eigum við að fara aðeins yfir ræðurnar sem sumir hv. þingmenn stjórnarliðsins og ráðherrar héldu hér eftir fall bankanna? Ég held að það væri hollt fyrir þá sjálfa að lesa þær.