140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:23]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur reyndar fram á þeim örfáu blaðsíðum sem fylgja tillögunni að ekki sé mikil reynsla komin á þessar breytingar. Það er aldeilis satt, ekki er komin mikil reynsla á þær.

Ég tek undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni um að það vanti rökstuðning með þessum breytingum, það vanti að undirbyggja af hverju þær eru gerðar. Ég hef ekki enn fengið svör við því.

Hvers vegna er verið að leggja niður efnahags- og viðskiptaráðuneytið? Ég hélt kannski að fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra gæti varpað ljósi á það en hann hafði ekki hugmynd um það heldur hvers vegna verið er að gera það. Það hafði alls ekki verið rætt í ríkisstjórninni fram að áramótum. Þetta er bara eitthvað sem menn byrja að ræða núna á þessu ári og það er enginn rökstuðningur fyrir því í þessari tillögu. Ég hefði haldið að það skipti dálitlu máli hvernig farið er með stjórn efnahagsmála í landinu og hvar þau mál eru vistuð. Þess vegna finnst mér mikilvægt að sú umræða verði tekin í þingnefndum áður en málið fer aftur til umræðu í þingsal.

Ég tek því undir það með hv. þingmanni að gögnin og sá rökstuðningur sem fylgir þessari tillögu er ófullnægjandi. Það dugar að sjálfsögðu ekki fyrir mig að það sé prívatskoðun manna hvað í þessu felst. Það þarf að styðja það með rökum, það þarf að styðja það með athugunum og það þarf að vanda miklu betur til þessa verks en þegar hefur verið gert, miklu betur.

Ég vil því enn og aftur ítreka að mér finnst mikið grundvallaratriði að þingið fái tækifæri til að fjalla um þetta mál rækilega í viðeigandi nefndum og það sé ekki þannig að það eigi að reka stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd áfram í þessu máli og það verði afgreitt í snarhasti. Það kemur ekki til greina.