140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:25]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þau orð hv. þm. Ólafar Nordal um að þessi þingsályktunartillaga fari líka til atvinnuveganefndar til meðferðar því að þetta snertir hana ekki hvað síst og að þar verði fjallað um þessi mál.

Ég get upplýst það hér að í ljósi afstöðu nánast allra samtaka innan landbúnaðar og sjávarútvegs gagnvart þessu máli lagðist ég gegn því að þessari vinnu yrði haldið áfram eins og alþjóð veit. Alþingi tók svo sem þá afstöðu líka á sínum tíma þegar það tók út úr því frumvarpi sem lagt var fram þá stofnun atvinnuvegaráðuneytis og að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Þess vegna vekur það mér furðu að þetta mál skuli vera keyrt áfram eins og raun ber vitni.

Ég held að það sé nauðsynlegt að málið komi einmitt fyrir atvinnuveganefnd. Ég get líka upplýst að haldnir voru nokkrir fundir með einstökum félögum og stofnunum innan þessara atvinnugreina og það væri mjög fróðlegt og upplýsandi fyrir nefndina að fá niðurstöður eða það sem kom fram á þeim fundum af hálfu þessara aðila þannig að menn sæju að þetta mál er rekið áfram í fullkominni andstöðu við atvinnugreinarnar.