140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna en hann fór eðli málsins samkvæmt hratt yfir vegna þess að hann hafði skamman tíma. Hv. þingmaður hefur tekið þátt í þessari umræðu um Stjórnarráðið, ekki bara núna heldur í hvert skipti sem það hefur verið rætt, held ég. Og þó að framganga stjórnarþingmanna hafi ekki verið áberandi, þeir hafa meira hent hingað inn meingölluðum frumvörpum sem þeir hafa lagt fram fram til þessa og ætlast til að þau fengju litla umræðu og mundu klárast fljótt, nokkurn veginn óbreytt, en þeim hefur ekki orðið að ósk sinni því að umræðan hefur verið þó nokkur.

Ég vil spyrja hv. þingmann, vegna þess að ég veit ekki um neinn sem hefur nokkurn tíma heyrt það: Hefur hv. þingmaður einhvern tíma heyrt þá hugmynd að setja bankana inn í atvinnuvegaráðuneyti? Hv. þingmaður nefndi mikilvægi þess að hafa Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann í það minnsta í sama ráðuneytinu og ég held að hv. þingmaður telji rök hníga til þess en það væri ágætt að fá sjónarmið hans. Mjög margir, sérstaklega þeir sérfræðingar sem hafa skoðað þessi mál og fjallað um þau, hafa komist að þeirri niðurstöðu og lagt til að þessar stofnanir yrðu sameinaðar af augljósum ástæðum. Svo sannarlega hefur enginn sérfræðingur lagt til að stía þessum stofnunum í sundur og fara með þær eins langt frá hvor annarri og mögulegt er.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hefur hann einhvern tíma heyrt áður þessa hugmynd sem kemur fram í þingsályktunartillögunni? Ég hef aldrei heyrt hana og ég veit ekki um neinn hér inni sem hefur tekið þátt í þessari umræðu eða nokkurn annan sem hefur heyrt það áður að setja eigi bankana og Fjármálaeftirlitið inn í atvinnuvegaráðuneyti.