140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Svarið er nei. Ég hef ekki heyrt af því að Fjármálaeftirlitið og bankarnir heyri nokkurs staðar undir atvinnuvegaráðuneyti. Ég sé ekki þá tengingu og tel að það sé mjög misráðið. Þetta er eitthvað sem þarf að ræða miklu betur og þetta er það sem vantar inn í þingsályktunartillöguna, það vantar kortlagningu á því hvað menn eru að gera og af hverju og til hvers.

Sumir hérna telja meira að segja að þetta sé eitthvað tengt aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu, að það hafi heimtað að landbúnaðarráðuneytið yrði sameinað þannig að sú eftirlitsstofnun sem þeir krefjast sé á einni hendi. Mér finnst það mjög ótrúlegt og trúi því varla, þannig að það vantar allan rökstuðning fyrir því af hverju menn eru að gera þetta og til hvers. Menn verða að gera þá kröfu á hinu háa Alþingi að ferlið sé ekki svo ógagnsætt að menn séu að flytja þingmál sem ekki liggur fyrir til hvers eru flutt og menn ætli jafnvel að gera eitthvað allt annað en í þeim segir. Og ég hef grun um það, talandi um Fjármálaeftirlitið og þá þætti, að meginmarkmiðið snerti ekki Fjármálaeftirlitið heldur ætli menn auðlindaráðuneytinu einhverja nýja starfsemi sem allir verði voðalega hissa á þegar það kemur fram og geta þá ekki mótmælt því vegna þess að þá er það orðið að staðreynd.