140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Það var einmitt það sem ég var að kvarta undan. Í greinargerð með tillögunni á síðu 2 og 3 eru taldir upp átta liðir sem kostir við nýafstaðna sameiningu ráðuneyta og vitnað er í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem segir, með leyfi herra forseta:

„Ríkisendurskoðun telur að vel hafi verið staðið að flestum þáttum við undirbúning og framkvæmd sameiningarinnar.“

Þetta er skýrsla sem kom fram stuttu eftir sameininguna og fjallaði bara um það hvernig staðið var að sameiningunni sjálfri. Síðan eru taldir upp margir liðir, átta liðir, eins og þeir væru í skýrslu Ríkisendurskoðunar. En ég get ekki séð að í henni sé til dæmis talað um betri yfirsýn yfir málaflokka eða að sú sameining sem menn hafi farið í sé af hinu góða eða að Ríkisendurskoðun hafi lagt blessun sína yfir það að sameining ráðuneyta í velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti hafi gefið þá raun sem þarna er verið að gefa í skyn. Ég mundi vilja spyrja hæstv. forsætisráðherra að því hvort Ríkisendurskoðun hafi komist að því að sameining stoðþjónustu allra ráðuneyta innan Stjórnarráðsins hafi leitt til betri þjónustu, o.s.frv., eins og gefið er í skyn í greinargerðinni.

Þessi umræða hefur náttúrlega verið mjög stutt og maður fær afar stuttan tíma til að ræða málin. Það er fjöldamargt í þessari stuttu greinargerð sem ég hefði viljað ræða miklu betur en kemst því miður ekki í.