140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, þetta er góð hugmynd en eins og allt annað í þessu er sú hugmynd óútfærð. Það er ekki búið að kortleggja hvernig þessi nefnd skuli skipuð, hverjir skuli skipa hana og hvernig ferlið sé. Og þarna er, merkilegt nokk, verið að flytja efnahagsmálin aftur undir forsætisráðherra að einhverju leyti sem er einmitt verið að taka frá honum í öðrum greinum. Maður verður svo áttavilltur þegar maður les þetta að maður skilur hvorki upp né niður í því hvar stjórn efnahagsmála á að vera.

Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að svona vitringaráð séu búin til. Þetta er til víða erlendis og reynt er að gæta mikils hlutleysis í því að velja þá sérfræðinga og vitringa sem í því eiga að sitja. Þeir geta örugglega orðið ráðuneytinu og ríkisstjórninni til mikils gagns ef þeir eru rétt nýttir og ef ferlið er hlutlaust. En það er ekki sett neitt um það í textann annað en að til skoðunar sé að koma á fót sérstöku sjálfstæðu efnahagsráði. Hvers vegna er þetta ekki bara tilbúið? Af hverju stendur ekki: „Fyrirhugað er“ eða: „Það á að setja í gang teymi sérfræðinga til að aðstoða ríkisstjórnina við efnahagsmál og þeir skulu valdir svona og svona“? Af hverju er þetta ógagnsæi, af hverju er þetta svona óljóst?

Það er svo margt hérna sem er látið eftir, sem á eftir að ákveða eins og með auðlindaráðuneytið þar sem menn vita ekki að hverju þeir ganga.