140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil beina spurningu til hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar og hún snýr að aðildarumsókn okkar Íslendinga að Evrópusambandinu. Sú aðildarumsókn er á grundvelli samþykktar Alþingis um að sótt skyldi um. Nú hafa menn deilt um það og við sjálfstæðismenn vöruðum mjög við því að farið yrði af stað í þessa vegferð alla með jafnmiklar pólitískar deilur og sundurlyndi og ljóst mátti vera af allri þeirri umræðu.

Nú hefur forsætisráðherra nýlega sagt eftirfarandi í þinginu í svari sínu við fyrirspurn frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, með leyfi virðulegs forseta:

„Við erum í samningaviðræðum, hv. þingmaður, um Evrópusambandsaðildina. Sú niðurstaða sem kemur út úr því ræður því fyrst og fremst hvort það séu það hagstæðir samningar að við leggjum þá fyrir þjóðina.“

Með öðrum orðum lýsir hæstv. forsætisráðherra því hér yfir að fram muni fara einhvers konar mat á þessum mögulegu samningum og síðan verði í kjölfar þess mats ákveðið hvort samningarnir verði lagðir fyrir þjóðina eða ekki. Væntanlega er það þá þannig að mat viðkomandi aðila ræður því hvort það séu slæmir samningar og þá sé þessu öllu saman hætt svipað og hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra sagði í umræðum á Alþingi sumarið 2009.

Mín spurning til hv. þingmanns er þessi: Er það eðlilegt og tekur hv. þingmaður undir með forsætisráðherra að forsætisráðherra eða framkvæmdarvaldið ætli sér að taka slíka ákvörðun? Eða verður þetta mál rætt á þinginu fyrst, tekin afstaða til mögulegs samnings um það hvort hann verði síðan sendur í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki? Verður þetta ef til vill ákvörðun framkvæmdarvaldsins, ríkisstjórnarinnar, eins og lesa má út úr orðum hæstv. forsætisráðherra og reyndar líka úr orðum hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra?