140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil nota nokkrar mínútur í að ræða mál sem fær litla athygli í fjölmiðlaumræðunni og í þinginu en getur þó ráðið úrslitum um það hvert við stefnum sem samfélag. Það eru stóru línurnar í menntamálunum sem ég er að tala um og það vekur athygli og er gleðilegt að Samtök atvinnulífsins setja menntamálin einmitt í forgrunn á aðalfundi sínum í dag og ræða þar ýmis atriði sem betur mega fara í menntakerfinu, svo sem styttingu námstíma og eflingu verk- og tæknimenntunar.

Ég held að þeir tímar séu að koma að við þurfum að verða enn róttækari. Við þurfum að skoða sjálfan grundvöll menntakerfisins og viðurkenna að grunnforsenda þess er í meginatriðum röng. Hér hefur verið byggt upp menntakerfi sem byggir á aðgreindum skólastigum sem ýmist eru á forræði ríkis og sveitarfélaganna eða sveitarfélaganna einna. Skipulag menntakerfisins hefur verið með þeim hætti að nemendur fylgja ákveðinni forskrift sem ákveðin er miðlægt af stjórnvöldum í aðalnámskrá og skólayfirvöldum innan ramma gildandi laga.

Afleiðingarnar eru skýrar, atvinnulífið fær ekki innan lands fagmenntað starfsfólk sem hæfir miklum vaxtargreinum eins og hugverkaiðnaði og umhverfistæknigreinum. Miklu fleiri nemendur leggja stund á bóknám hér á landi en í öðrum löndum og brottfall úr framhaldsskólum er í kringum 30%. Það er Evrópumet. Ég tel að við þurfum að bregðast við þessari stöðu, stokka spilin upp á nýtt og hugsa menntakerfið út frá því boðorði stjórnarskrárinnar að allir nemendur eigi rétt á menntun við sitt hæfi. Við þurfum að hætta að líta á menntakerfið sem fasta stærð sem nemendur þurfi að laga sig að en setja heldur nemendurna í brennipunkt og móta síðan kerfið út frá þeim.

Lykilatriðið er að strax í grunnskólanum hefjist samstarf nemandans og skólans um það sameiginlega verkefni að greina hæfileika, áhugasvið og færni hvers og eins nemanda og móta síðan skólastarfið í framhaldi út frá því. Ég hvet okkur í þinginu til að hefja þessa umræðu. Við þurfum að gera það öll saman, umræðu um nýtt menntakerfi sem spyr nemandann:

Hvað get ég gert fyrir þig? Ekki: Ertu búinn að læra heima það sem ég setti þér fyrir í gær?