140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hygg að þetta sé í fjórða eða fimmta sinn sem ég svara undir liðnum um störf þingsins þessari sömu fyrirspurn hv. þingmanns (Gripið fram í.) en það er út af fyrir sig ekki nema sjálfsagt að gera það einu sinni enn. Það má vel taka undir að það gæti verið ágætt fyrir þingið og stjórnvöld að gera úttekt á stöðu leigjenda. Það var nýtt í fyrirspurninni. Eflaust er það hið þarfasta mál og sjálfsagt að huga að því. Ég veit út af fyrir sig ekki hvort það er sérstaklega málefni efnahags- og viðskiptanefndar, ég hygg að velferðarnefndinni stæði það nær vegna húsaleigumála og húsnæðismálanna almennt sem þar eru vistuð.

Hvað varðar hins vegar kannanir á stöðu heimilanna árétta ég það sem margoft hefur komið fram af minni hálfu að ég tel að þar skorti engin gögn. Við búum að mjög öflugum upplýsingakerfum og þurfum ekki að reikna frekar út hversu margir eru í vanda. Ég held að það liggi út af fyrir sig algjörlega fyrir. Spurningin er bara um að taka ákvarðanir um hvað menn vilja gera en ekki gleyma sér í einhverjum excel-töflum um erfiðleika fólks eins og tilhneiging hefur verið til. Við búum að svo öflugum upplýsingakerfum að ríkisskattstjóri sendi okkur stöðu okkar eins og hún var um áramótin í skattframtölum sennilega í febrúar. Allir áttu rafrænan aðgang að eignastöðu sinni og skuldastöðu af ótrúlegu nákvæmni og það eru auðvitað upplýsingar sem hægt er að kalla eftir inn í þingið hvenær sem er og þarf ekkert að samkeyra, búa til einhver frumvörp eða flytja einhverja hluti til að ná í. Þetta liggur bara fyrir.

Hins vegar getur febrúardómur Hæstaréttar kannski breytt um nokkra tugi milljarða stöðu heimila og í sjálfu sér hefði það þess vegna ekkert upp á sig að gera einhverja sérstaka könnun nú en gæti verið tilefni til þess að skoða hvaða áhrif það hefur haft á myndina þegar endurútreikningar eru búnir.