140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Já, það er rétt, margoft hefur verið kallað eftir því úr ræðustól að teknar verði saman upplýsingar um skuldavanda heimilanna. Ég hef ásamt fleirum hér kallað eftir því og þetta er ekki í fyrsta skipti sem hv. þm. Helgi Hjörvar lýsir því yfir að ekki þurfi frekari upplýsingar til að taka ákvarðanir. En þá er einmitt spurningin: Hvenær er það stefnan hjá ríkisstjórnarflokkunum að taka einhverjar ákvarðanir?

Ég man eftir því að hér var boðað til blaðamannafundar og öllum landsmönnum tilkynnt að ekki yrði gripið til frekari aðgerða til að leysa skuldavanda heimilanna. Það síðasta sem er síðan að frétta er þessi skýrsla sem kom frá Seðlabankanum fyrir páska og ég man ekki betur en að fjórir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi verið kallaðir saman til að fara yfir það með hvaða hætti ætti að bregðast við henni. Síðan segir hv. þm. Helgi Hjörvar að það sé ekkert sérstakt nýtt í þessu og ekkert sérstakt í pípunum annað en að fara að taka ákvarðanir.

Þá held ég að það sé rétt að hv. þingmaður noti næsta tækifæri sitt hér í ræðustól — vegna þess að ég efast ekki um að hv. þm. Pétur H. Blöndal haldi áfram að kalla eftir upplýsingum um skuldavanda heimilanna — til að upplýsa okkur um það hvaða aðgerða sé að vænta frá ríkisstjórninni, ef einhverra aðgerða er að vænta. Það er algjörlega óþarft að fara eins og köttur í kringum heitan graut enn og aftur, við erum búin að tala um þetta í þrjú ár án þess að nokkur niðurstaða liggi fyrir. Nýjasta útspilið frá ríkisstjórninni, það að fara að ræða það að lífeyrissjóðirnir ætli sér að fara að fella niður skuldir vegna lánssjóðanna, er mjög hæpið miðað við þá umræðu sem fram hefur farið um þau mál hér í þessum ræðustól á undanförnum árum. Því held ég að full ástæða sé til þess, frú forseti, að ráðherrar komi hingað og gefi okkur skýrslu um hvað sé í pípunum varðandi þessi mál.