140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið, m.a. hjá hv. þingmönnum Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Gunnari Braga Sveinssyni, vil ég segja að það er mikilvægt að myndast hefur samstaða um það, a.m.k. á vettvangi utanríkismálanefndar, að halda aðskildum lagalegum og málsvarnarlegum þætti þess máls sem hér hefur verið til umræðu annars vegar og pólitískum samskiptum milli Íslands og Evrópusambandsins hins vegar. Ég tel að það hafi verið vel staðið að því, þar með talið einnig af hálfu hæstv. utanríkisráðherra, (Gripið fram í: Nei.) og ég tel ekki maklegt hvernig að honum er vegið í ræðustól Alþingis hvað þetta mál snertir.

Hins vegar skilja sumir, og ég ætla ekki að telja upp nein nöfn í því efni, Evrópusambandsmálið ekki frá nokkru öðru máli sem er til umfjöllunar á vettvangi hv. Alþingis. (Gripið fram í: Ertu að tala um …?) og það er ekki hæstv. utanríkisráðherra sem það á við um. Það á við um ýmsa aðra.

Ég vil líka geta þess að það getur verið nauðsynlegt að gæta trúnaðar um mál sem eru til umfjöllunar í þingnefndum og þess vegna eru sérstakar reglur í þingsköpum um það hvernig með þau á að fara. Það er aðallega þá í þeim tilgangi að verja hagsmuni. Mál geta verið þannig vaxin að það þarf að gæta trúnaðar um þau, a.m.k. um tíma, þó að það sé ekki um aldur og eilífð. Þegar mál eru orðin opinber gildir að sjálfsögðu ekki sá trúnaður lengur.

Við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur sem fór hér nokkuð mikinn um utanríkisráðherra vil ég bara segja þetta:

Vefur orðaflaum um fingur

frauka ein,

Vigdís Hauks sem hausnum stingur

í helgan stein.

(VigH: Margur heldur mig sig.)