140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Aðeins vegna orða síðasta ræðumanns held ég að það sé skynsamlegt í þeim fjölþætta vanda sem stór hluti heimila landsins á við að búa um þessar mundir að nálgast lausnina á honum með fjölþættum aðgerðum. Greiðsluvandi heimilanna er að hluta til tekjuvandi, en ég kom ekki hingað upp til að ræða það.

Þingmenn Framsóknarflokksins hafa komið hingað upp í stríðum straumum til að kveinka sér undan átektum hæstv. utanríkisráðherra (GBS: Það eru ósannindi.) sem brugðist hefur við framgöngu meðal annars hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í tilefni af umræðunni um að framkvæmdastjórn ESB stefndi sér til meðalgöngu fyrir EFTA-dómstólnum. Tilefni þessara viðbragða utanríkisráðherra eru ummæli hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þegar hann sagði að utanríkisráðherra gleddist í hvert skipti sem sparkað væri í Ísland. (Gripið fram í.) Síðan hafa menn komið upp í þennan ræðustól í stríðum straumum til að toppa þau ummæli, (Gripið fram í.) tala um lygar og ósannindi og stappa niður fótum. (Gripið fram í.) Þetta sýnir ábyrgðarleysið og léttúðina (Gripið fram í.) í þessu grafalvarlega máli. Við stöndum frammi fyrir því að verja eina mikilvægustu hagsmuni Íslendinga í lýðveldissögunni í því dómsmáli sem nú hefur verið höfðað (Gripið fram í.) og það voru framsóknarmenn sem mæltust til þess að dómsleiðin yrði farin, (Gripið fram í.) þessi málaferlaleið. Í stað þess að gerður yrði siðaður samningur milli ríkja um lausn (Gripið fram í.) á málinu sem tryggt hefði (Gripið fram í.) greiðslu lágmarksinnstæðnanna af eignum Landsbankans vildu menn varpa þessum reikningi hugsanlega á þjóðina (Gripið fram í.) í gegnum þessa dómstólaleið. (Gripið fram í: … að grínast?) Þeir hljóta þá (Forseti hringir.) að vera menn til að taka afleiðingum þeirrar afstöðu sinnar því að svona birtist þessi dómstólaleið okkur núna og ekki bara með tómati og sinnepi, (Forseti hringir.) eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði, heldur með öllu, líka steiktum og hráum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)