140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru heilmikil tíðindi sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason flutti okkur að svo virtist vera að nú væri farið að örla á hugmyndum um að steypa stjórnarflokkunum saman. Það þykir kannski eðlilegt vegna stærðarhagkvæmni að steypa stjórnmálaflokkum saman þegar þeir eru orðnir mjög litlir, eins og fram kemur í skoðanakönnunum, og horfa þannig til hugmynda sem uppi eru og verið hafa í viðskiptalífinu um að búa til samlegðaráhrif þegar ágreiningsefnunum fækkar, eins og við höfum tekið eftir. Við sjáum af því ríkisstjórnarsamstarfi sem verið hefur að menn hafa tekist á við málin frá degi til dags, leyst þau eitt af öðru með því að gefa eftir sitt á hvað með það eitt að markmiði að hanga og sitja. Fyrir vikið búum við núna í stjórnlausu landi.

Ég hafði ekki áttað mig á því að Vinstri grænir væru farnir að taka hugtakið aðlögunarferli eða aðlögunarsamningagerð svona bókstaflega þegar kemur að þeirra eigin flokki. Ég veit að þeir hafa tileinkað sér hugtakið mjög vel varðandi aðildarviðræðurnar gagnvart Evrópusambandinu sem nú hafa breyst í aðlögunarviðræður eins og allir vita og nú er búið að búa til einhvers konar aðlögunarferli Vinstri grænna að Samfylkingunni.

Það sem vekur athygli mína í þessari þingsályktunartillögu er að talað er mjög fagurlega um það samráð sem átt hafi sér stað og vitnað til fjölda funda sem haldnir hafi verið en við sjáum þess hins vegar ekki merki í þeirri niðurstöðu sem fengist hefur. Samráðið hefur verið sýndarsamráð bara til að geta sagt að menn hafi sest niður með útgerðarmönnum, bændum, iðnrekendum og verkalýðshreyfingunni og öðrum þeim sem láta sig málið varða, en niðurstaðan réðst bara af þeim pólitísku hrossakaupum sem gera þurfti til að ná utan um það sem gert var um áramótin þegar tveir ráðherrar voru reknir sem voru óþægir ljáir í þúfu hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) og hæstv. þáverandi fjármálaráðherra.